Prjónað fyrir Frú Ragnheiði

Þórir Hall Stefánsson tók við hlýjum handprjónuðum húfum, vettlingum og sokkum fyrir hönd Frú Ragnheiðar. Með honum á myndinni eru meðlimir Prjónahóps Ljóssins.

Prjón, hekl og útsaumshópur Ljóssins er þjónusta fyrir krabbameinsgreinda í endurhæfingu.

Hópurinn hittist alla miðvikudagsmorgna og njóta þess að prjóna, hekla eða sauma út saman. Markmið hópsins er meðal annars að prjóna til góðs og gefa áfram til samfélagsins. Að þessu sinni hefur hópurinn síðustu mánuði prjónað húfur, vettlinga, sokka og trefla fyrir Frú Ragnheiði.

Frú Ragnheiður er verkefni sem hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og húsnæðislausra einstaklinga og einstaklinga sem nota vímuefni í æð og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu í formi heilbrigðisþjónustu og nálaskiptaþjónustu.

Það var sönn ánægja fyrir prjón, hekl og útsaumshópinn að afhenda Þóri Hall Stefánssyni sem kom fyrir hönd Frú Ragnheiðar og tók á móti góssinu, sem á eftir að koma sér vel í kuldanum í vetur.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.