Myndum saman Ljósafoss 9. nóvember 2024

Hinn árlegi Ljósafoss niður hlíðar Esjunnar mun eiga sér stað laugardaginn 9. nóvember.

Ljósafoss 2023

Ljósafoss 2023

Þar mun stór hópur göngfólks ganga upp að Steini og fara svo niður með höfuðljós og mynda fallegan Ljósafoss í þann mund sem myrkrið skellur á. Er þetta gert til að minna á mikilvægi starfsemi Ljóssins sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.

Þorsteinn Jakobsson fjallagarpur leiðir gönguna eins og undanfarin ár og björgunarsveitin Kjölur verður á staðnum okkur til halds og trausts. Við hittumst á bílastæðinu við Esjuna kl. 15:30 og göngum af stað kl 16:00 upp að Steini.

Á síðasta ári barst Ljósinu liðsstyrkur frá öflugum samstarfsaðila í undirbúningi og framkvæmd Ljósafossins þegar Sjóvá lagði til 1000kr fyrir hvern þann sem gekk af stað á fjallið. Það sama verður upp á teningnum í ár og þökkum við vinum okkar hjá Sjóvá kærlega fyrir stuðninginn!

Við hvetjum alla gönguhópa og fjallagarpa, og hvern þann sem kann að meta vetrargöngur, að reima á sig gönguskóna og leggja góðu málefni lið! Við minnum um leið á að Esjan er krefjandi fjallganga og því ekki á allra færi.

Í viðburðinum okkar á Facebook má finna enn frekari upplýsingar og efni.
Hlökkum til að sjá ykkur.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.