Aðstandendakvöld í streymi fyrir fullorðna aðstandendur

Krabbameinsgreining hefur áhrif á alla sem sem tengjast þeim sem greinast og oft á tíðum er sagt að krabbamein sé fjölskyldusjúkdómur. Greining og meðferð getur haft áhrif á alla þætti dagslegs lífs svo sem hlutverk og stöðu einstaklinga innan fjölskyldu og í persónulegum samskiptum fjölskyldumeðlima við hvert annað sem og við aðila utan nánustu fjölskyldu. Aðstandendakvöld í streymi eru hugsuð fyrir alla aðstandendur sem eru að styðja ástvin sinn í gegnum krabbameinsgreiningu og meðferð, sama hvar í ferlinu ástvinur þeirra er staddur. Það skiptir máli að huga vel að eigin heilsu, andlega og líkamlega, á þessu tímabili þar sem aðstandendur geta ekki verið stuðningur fyrir aðra ef þeim tekst ekki að standa með sér.

Það hefur verið reynsla aðstandenda sem hafa þegið stuðning frá jafningjum í Ljósinu að það hafi hjálpað að spegla sig í öðrum, með því að tala eða hlusta eða blanda beggja. Utanaðkomandi stuðningur og að upplifa samfélag, að man sé ekki að takast á við þessa reynslu í einangrun, einrúmi og afskiptaleysi hefur mikið að segja um hvernig fólk tekst að takast á við þetta tímabil. Að æfa sig í að setja orð á tilfinningar, bera kennsl á eigin líðan, að setja mörk og sjálfsmildi er allt mikilvægt og hjálpar fólki að líða betur eða umbera líðan sína. Skilningur á eigin líðan og aðstæðum minnkar ótta sem og að ræða það upphátt sem liggur á hjarta.

 

EFNISTÖK

Á námskeiðinu verður rætt um að vera aðstandandi í endurhæfingarferlinu, hlutverk og venjur í samskiptum og sjálfsrækt sem aðstandandi. Tímarnir verða blanda fræðslu og samtals og hvatt verður til samtals, en öllum frjálst að taka þátt að því marki sem hver og einn treystir sér til.

Næsta erindi

Hefst 14. janúar 2026 í streymi

Miðvikudagar kl. 16:30-18:00 í 2 skipti

Umsjón: Guðrún Friðriksdóttir og Valgý Arna Eiríksdóttir, iðjuþjálfar

Námskeiðið kostar 2.000 kr

Skráning á námskeið 14. jan