Þriðjudagsfyrirlestur marsmánaðar hefst að þessu sinni kl. 14:15 og er samkvæmt venju í húsnæði Ljóssins við Langholtsveg þann 27. mars n.k . Að þessu sinni fáum við Thelmu Björk fatahönnður og jógakennara til okkar og fjallar hún m.a. um tenginguna á milli handverks, líkama og sálar.
Thelma Björk er fatahönnuður, móðir og jógakennari hún varð fyrst hugfangin af jóga og hugleiðslu á meðgöngunni og eftir það lá leiðin í kennaranám í kundalini jóga hjá Auði Bjarnadóttir í Jógasetrinu.
,,Jóga og hugleiðsla hefur breytt lífi mínu í alla staði. Það hefur gefið mér innri frið, sjálfstraust, kjark og úthald til að stíga inn í draumana mina og að trúa á sjálfa mig. Ég hef náð að næra allt það bjarta og góða í mér og sjá það í öðrum, auk þess sem ég upplifi aukinn kjark og úthald til að takast á við þær áskoranir sem ég mæti í lífinu. Umfram allt hef ég öðlast traust til lífsins í gegnum jógaiðkunina mína. Ég treysti því að lífið færi mér allt sem ég þarf og allt sem ég vil.“
Thelma Björk hefur verið að kenna jóga og hugleiðslu síðan hún útskrifaðist bæði í Sólum og í Jógasetrinu. Thelma Björk kennir eldri borgurum jóga og hugleiðslu í Jógasetrinu og jóga og handverk í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Thelma hefur einnig unnið með Systrasamlaginu í nokkrun tíma þar sem hún hefur meðal annars tekið þátt í að leiða jóga og hugleiðslu fyrir þeirra frægu sveitasamflot og núna nýjasta verkefni þeirra Slökun í borg. Einnig var Thelma Björk að klára meistaranámi við Listaháskóla Íslands í listkennslufræðum þar sem hún var og er að vinna með tengslin milli handverks og hugleiðslu. Meðfram því að kenna og miðla reynslu sinni í gengum jóga og hugleiðlsu er Thelma Björk að kenna námskeiðin sín, „Slaka&Skapa“ þar sem hún blandar saman hugleiðslu við skapandi ferli hvers nemanda.
„Ég finn fyrir áþreifanlegri tengingu á milli huga við líkama og sál gegnum jóga og handavinnu. Orðið jóga þýðir sameining huga líkama og sálar. Ég tel að það sé gífulega mikil þörf á núvitund í daglegu lífi og sérstaklega í skólakerfinu. Huga þarf að önduninni eins og í jóganu því við erum jú alltaf að reyna að ná stjórn á huganum. Þegar við höfum náð stjórn á önduninni þá náum við stjórn á huganum. Þegar við höfum stjórn á huganum er allt mögulegt. Handverkið er mér hugleiðsla sem styrkti hug minn, hjarta og hönd.
Móðuramma mín Brynhildur Friðriksdóttir kenndi mér handavinnu, útsaum, bróderí, hekl og að prjóna. Ég fann strax hvað það róaði mig sem barn að gera handavinnu með ömmu og hvað það skipti mig miklu máli að geta notað hendurnar á mér til skapandi verka og að vera undir leiðsögn ömmu. Yfir handavinnunni sagði hún mér sögur af sjálfri sér og formæðrum okkar“
Hugleiðsla getur verið alls konar og mismunandi útfærð, hvort sem er í kveðskap, góðum göngutúr, með handavinnu, garðyrkju, slakandi öndun, fljótandi í vatni eða heima að þrífa. Hugleiðsla og handavinna hjálpar líkamanum að slaka á og með ástundun hægist á hjartslættinum og líkaminn dregur úr framleiðslu stresshormóna sem valda kvíða og streitu. Handavinna færir þér hugarró og er heilsubætandi líkt og hugleiðsla (Strand, 1998).
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.