Endurhæfingin er í boði fyrir þig og aðstandendur þína frá greiningu og eins lengi og þörfin er. Mikið er lagt upp úr heimilislegu og notalegu umhverfi þar sem áhersla er lögð á samvinnu, samhug og virkni. Ljósið býður upp á sérhæfða endurhæfingu og stuðning þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek til að þú náir upp virkni og eflir heilsu og lífsgæði. Iðjuþjálfar og sjúkraþjálfarar hjálpa til við að setja raunhæf markmið og áætlanir sem auka daglega virkni, sem hefur aftur áhrif á þrek og lífsgæði almennt. Ljósið býður upp á fjölbreytta dagskrá þar sem reynt er að höfða til allra. Má þar nefna; líkamsrækt, jóga, gönguhópa, sjálfstyrkjandi námskeið, fræðslu, handverkshópa, snyrtinámskeið, slæðuhnýtingar, jafningjafræðslu, nudd, slökun og samveru. Sjá stundaskrá undir starfsemi Ljóssins. Það er mikið lagt upp úr því að hafa sem fjölbreyttastan hóp fagaðila sem miðla þekkingu og reynslu á sínu sviði. Þeir fagaðilar sem koma að starfsemi Ljóssins eru: Iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingur, listmeðferðarfræðingur, krabbameinssérfræðingar, heilsufræðingar, markþjálfar, jógakennari, heilsunuddarar, matreiðslumenn, handverksfólk og ýmsir fyrirlesarar.