Í gær lauk maraþongleðinni í ár formlega þegar Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íslandsbanki buðu góðgerðafélögum og öðru góðu fólki í létta uppskeruhátíð. Frá Ljósinu mætti Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra, og Íris Frímannsdóttir, samskipta- og markaðsfulltrúi, til þess að taka móti viðurkenningu en Ljósið var eitt af þremur söfnunarmestu góðgerðarfélögum Hlaupastyrks í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2025. Lokaupphæðin nam heilum 31.882.824 kr og er metsöfnun Ljóssins frá upphafi!
Reykjavíkurmaraþonið er einn stærsti fjáröflunarliður Ljóssins og þessi stuðningurinn skiptir okkur öllu máli. Í ár hlupu alls 335 hlauparar fyrir Ljósið, á öllum aldri og dreifðust þeir á allar vegalendir, allt frá skemmtiskokki til heils maraþons og náðu að safna yfir 5.600 áheitum.
Sumir tóku þátt í sínu fyrsta hlaupi á meðan aðrar hafa verið með okkur ár eftir ár. Við erum svo ótrúlega þakklát og stolt af þessum frábæra stuðningi.
Við viljum senda innilegar þakkir til allra þeirra sem hlupu, hvöttu og styrktu sitt fólk og Ljósið, í Reykjarvíkurmaraþoninu í ár. Þið eruð ómetanleg og hjálpið okkur að gera Ljósið að enn öflugari endurhæfingu!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






