Í dag er Bleiki dagurinn en hann er árvekniátak Krabbameinsfélagsins. Í ár er það tileinkað konum með langvinnt krabbamein undir fallega slagorðinu það er „list að lifa með krabbamein“.
Við getum einnig notað daginn í dag til að hugsa til allra þeirra sem hafa greinst með þennan vágest. Vágestur sem læðist aftan að fólki og á einu andartaki breytist lífið. Allt sem var sjálfsagt í gær er það ekki í dag, framtíðaráformin og vellíðan bæði andleg sem líkamleg breytist á augabragði. Í staðinn getur læðst inn ótti, reiði, sorg og djúp óvissa. Við sem vinnum við að styðja og styrkja þau sem lenda í þessum aðstæðum þekkjum vel alla þessa mannlegu þætti sem yfirtaka lífið.
Við vitum líka að faglegt, jákvætt viðmót, styðjandi samtal og umhyggja getur breytt miklu. Þannig geta litlir hlutir eins og vinaleg snerting, hlátur í gegnum tár og samvera verið ómetanlegur stuðningur og skipt sköpum í ferlinu öllu.
Það eru margir sem koma að því að styðja, styrkja, sýna umhyggju, hlýju og veita von í þessum aðstæðum. Að hinn krabbameinsgreindi og aðstandendur þeirra finni að þau séu gripin á erfiðum tímum skiptir sköpum. Það koma margir að því ferli og hafa helgað líf sitt þeim tilgangi að lækna, styðja og líkna. Má þar nefna heilbrigðisstarfsfólk, endurhæfingaraðila, krabbameinsfélög um allt land og svona mætti lengi telja. Öll höfum við sama tilganginn en það er að fólk sem greinist með krabbamein og fjölskyldur þeirra fái umhyggju og verkfæri til að halda áfram og sjá tilgang og von.
Mig langar að þakka öllum þessum aðilum, við stöndum í þessu saman hver á sinn hátt og látum hlýju, samhyggð og von verða okkar leiðarljós.
-Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






