Listakonan Sólrún Halldórsdóttir ákvað að endurvekja listaverkið sitt „Pink“, sem hún málaði upprunalega árið 2011. Verkið var fyrst sýnt í listasalnum Anarkíu í Kópavogi á sínum tíma. Nafnið Pink vísar til bleika litarins á blómunum í verkinu og táknar von.

Á bakvið verk Sólrúnar liggur sterk og persónuleg tenging, þar sem margir í fjölskyldunni hennar hafa greinst með krabbamein gegnum árin, og í maí síðastliðnum greindist besta vinkona hennar, Harpa Ólafsdóttir með krabbamein. Harpa hefur nýtt sér þjónustu Ljóssins og segir mikilvægt að geta leitað sér stuðnings í þessu erfiða ferli.
Í kjölfarið á greiningu Hörpu tók Sólrún þá fallegu ákvörðun að endurvekja verkið sitt, Pink og selja það til styrktar Ljósinu. Hún endurprentaði verkið á striga og málaði persónulega inn á hvert eintak. Hvert verk er því einstakt, rétt eins og vegferð hvers og eins.
Með verkinu vill Sólrún miðla þeirri von og hlýju sem verkið stendur fyrir og styrkja starfsemi Ljóssins sem hefur veitt svo mörgum ljós á þeirra vegferð.

Á myndinni, frá vinstri: Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins, Sólrún Halldórsdóttir, listakona og Harpa Ólafsdóttir vinkona Sólrúnar.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






