Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun kom fram í máli heilbrigðisráðherra að samningar hefðu náðst milli Ljóssins og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Ljósið vill koma eftirfarandi á framfæri:
Undirritaður var skammtímasamningur út árið 2025 fyrir það fjármagn sem þegar hafði verið ákveðið á fjárlögum þessa árs. Viðbótarframlag sem fjárlaganefnd ákvað í fyrra eða 195 m kom beint frá Heilbrigðisráðuneytinu, en ekki sem hluti af varanlegum samningi við SÍ. Ljósið hefur frá ársbyrjun 2024 starfað á grundvelli tímabundinna samninga, og nýjasti samningurinn tekur eingöngu til þessa árs.
SÍ hélt eftir greiðslum fyrir ágúst og september þar til undirritun fór fram nú í október. Eftir stendur að engin langtímalausn hefur enn náðst um fjármögnun starfseminnar eftir árið 2025. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026 er áfram gert ráð fyrir 283 milljónum króna framlagi til Ljóssins – sem er veruleg lækkun frá því sem þarf til að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi fyrir þjónustuna.
Ljósið hefur áréttað mikilvægi þess að fá langtímasamning við Sjúkratryggingar Íslands þannig að þjónustan við krabbameinsgreinda einstaklinga geti haldið áfram án óvissu og truflana. Við erum þó þakklát fyrir orð heilbrigðisráðherra að Ljósið gæti fengið viðbótarfjármagn og vonum innilega að það verði að veruleika.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






