Ljósið býður þjónustuþegum sínum og mökum þeirra í fræðsluerindi með Áslaugu Kristjánsdóttur, kynfræðingi mánudaginn 31. mars kl. 16:30-17:30. Erindið er hluti af fyrirlestraröðinni Samtalið heim og er ætlað þjónustuþegum og mökum þeirra sem vilja fá hagnýtar leiðir til að styrkja tengslin, halda samtalinu lifandi og rækta ástina – jafnvel á erfiðum tímum.
Áslaug Kristjánsdóttir, er einn af vinsælustu fyrirlesurum Ljóssins og hefur verið fastur gestur í okkar fræðslu síðustu ár. Hún talar opinskátt, hlýlega og með virðingu um þessi mikilvægu málefni – og hjálpar fólki að finna leiðir til að hlúa að sambandi sínu í gegnum samtal, nálægð og umhyggju.
Áslaug leit við hjá okkur í síðustu viku og ræddi aðeins við okkur um hvað hún ætlar að fjalla um á fræðslunni:
Hverjar eru algengustu spurningarnar sem þú færð frá krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra í kjölfar krabbameinsgreiningar:
Ætli það séu ekki hvernig getum við ræktað nándina og ástina samhliða krabbameinsgreiningu? Já og hvernig talar maður um kynlíf þegar lífið tekur óvænta stefnu?
Afhverju verður þetta umræðuefni flókið?
Það er eðlilegt er að upp komi áskoranir í parsambandi í kjölfar greiningar og algengt er að pör fjarlægist þegar þau takast á við alvarlega veikindi – Þau standa saman í baráttunni, en gleyma að standa saman í ástinni. Nándin þarf þó ekki að bíða því hún er hluti af lífinu en orkuleysi er til að mynda ein ástæðan fyrir að kynlíf og samlíf verður áskorun.
Afhverju ætti fólk að skella sér á fræðsluerindið þitt í Ljósinu?
Ég ætla að fjalla um viðfangsefnið þannig að fólk fái innsýn í hvað gæti mögulega verið að brjótast um hjá maka þeirra. Helsta áskorunin er oft bara að tala um þetta og ég er að reyna að opna á það. Margir hafa verið saman í áratugi án þess að ræða kynlíf. En það er aldrei of seint – og kannski leynist í þessu nýtt tækifæri: Að stunda kynlíf og rækta nánd eins og þú hefur aldrei gert áður.
Við hvetjum pör eindregið til að mæta saman og gefa sér rými fyrir klukkutíma stefnumót í Ljósinu. Það getur verið byrjunin á nýju samtali, meiri tengingu og aukinni vellíðan á óvissutímum.
Erindið er án kostnaðar fyrir þjónustuþega Ljóssins og maka þeirra.
Mánudaginn 31. mars kl. 16:30-17:30
Smelltu hér til að skrá þig
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.