Dagana 30. nóvember og 1. desember síðastliðinn fór fram Listmarkaðurinn Gefum Ljós á Akranesi.
Var markaðurinn skipulagður af Smára Jónssyni, en allur ágóði af sölu verkanna er ætlaður til að styðja við starfsemi Ljóssins. Sjálfur er Smári listamaður og hélt utan um verkefnið frá hugmynd til framkvæmdar.
59 listamenn gáfu verk til markaðssins og var úrvalið ótrúlega fjölbreytt og spennandi. Verkefnið gekk vonum framar og safnaðist yfir eina milljón króna.
Smári lagði mikla vinnu í að safna verkunum saman og tryggja fjölbreytileika í framboðinu. „Þetta er ótrúlega fallegt samvinnuverkefni þar sem listamenn frá öllum landshornum koma saman og leggja sitt af mörkum til að styrkja Ljósið,“ segir Smári, en hann hefur sjálfur notið þjónustu Ljóssins og þekkir mikilvægi starfsins sem þar fer fram.
Sannarlega magnað verkefni sem smitaði út frá sér. En þegar Amma Andrea sem selur sælgæti til styrktar góðum málefnum heyrði af þessu, lét hún upphæð af sælgætissölu föstudagsins renna til Ljóssins.
Boðið var upp á fallegan tónlistarflutning í boði nemenda tónlistarskólans á Akranesi
„Kærleikurinn var svo magnaður, ég hitti marga úr Ljósinu á markaðinum og var kærleikurinn allt umlykjandi“ sagði Smári sáttur við afrakstur þessa fallega samvinnuverkefnis.
Við hjá Ljósinu erum hjartanlega þakklát fyrir þetta góða framtak og þökkum öllum þeim sem lögðu hönd á plóg.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.