Foreldrarnir reyna almennt að halda ímynd sinni sem fullfært foreldri en alvarleg veikindi eins og krabbamein breyta óhjákvæmilega getunni til að gera sömu hluti með börnum sínum og áður.
Foreldrar hafa almennt fengið lítinn stuðning og undirbúning varðandi þau áhrif sem veikindin hafa á börn þeirra og hvernig það er að vera foreldri og sjúklingur á sama tíma.
Takmarkaðar rannsóknir og klínískar athuganir hafa verið gerðar á reynslu af að vera veikt foreldri. Þær erlendu rannsóknaniðurstöður sem gerðar hafa verið sýna að foreldrar eiga í erfiðleikum með að sinna foreldrahlutverki sínu.
Erfið einkenni eins og verkir, líkamleg þreyta, ógleði, einbeitingarleysi og kvíði takmarkar getuna að vera foreldri.
Sjúkdómur er kröfuharður húsbóndi
Kröfur sjúkdóms eru miklar og því lítill tími og geta til að sinna barni. Almennt er álagið á alla fjölskyldumeðlimi. Fríski makinn upplifir áhyggjur af veikindunum og fær líka nýtt eða aukið hlutverk varðandi umönnun, húsverk, uppeldi barna, og samskipti við heilbrigðisfólk.
Fríska foreldrið getur verið yfir sig þreytt og ekki haft orku til að sjá um dagleg húsverk og uppeldi barna. Það þarf að takast á við tilfinningar sem geta innifalið sorg, reiði og pirring.
Börnin geta upplifað að þeirra hlutverk sé að hjálpa báðum foreldrum til að líða betur sem er ekki viðráðanlegt né viðunandi. Ættingjar og vinir þurfa oft að grípa inn í þessar aðstæður og hjálpa til og þeim fylgja aðrir siðir og venjur hvað uppeldi barna varðar.
Erlendar rannsóknaniðurstöður sýna að foreldrar hafa tilhneigingu til að fela angist sína fyrir börnum sínum og upplifa skömm þegar þeim mistekst það. Sumir foreldrar óttast að afleiðingar veikindanna geti haft neikvæð áhrif á börnin þeirra. Þeir eru hræddir um að veikindin valdi börnum þeirra óöryggi, sorg og sársauka. Þeir upplifa erfiðleika að koma jafnvægi á nauðsyn þess að annast um börnin og sinna sjálfum sér. Foreldrarnir reyna almennt að halda ímynd sinni sem fullfært foreldri en alvarleg veikindi eins og krabbamein breyta óhjákvæmilega getunni til að gera sömu hluti með börnum sínum og áður.
Þegar foreldri er gefinn kostur á að ræða um barn sitt koma fram miklar áhyggjur af afdrifum þeirra. Það er algengt að þessar áhyggjur séu ekki ræddar eða viðurkenndar.