Börn skilja í gegnum foreldra sína hvað er að gerast í veröld þeirra.
Foreldrar eru sérfræðingar í lífi barna sinna. Þeir vita hvernig þau bregðast við álagi, slæmum fregnum og hvað gleður þau. Að skilja viðbrögð barna miðað við aldur og venjuleg viðbrögð þeirra við áfalli getur hjálpað börnum og foreldrum í gegnum erfiðan tíma. Besta úrræðið er að bregðast við hlutum jafnóðum og þeir birtast.
Ef foreldri er í tilfinningarlegu ójafnægi og tekur ekki eftir hegðun barnsins er tilhneiging hjá barninu að vekja athygli á sér hvað sem það kostar. Börn bregðast vel við einföldum orðum og einlægni. Að leyfa þeim að tjá tilfinningar sínar er líka mjög mikilvægt. Að fá þau til að tjá sig getur oft verið erfitt og sérstaklega þegar um ung börn er að ræða.
Börn ganga í gegnum mörg stig þegar þau heyra um sjúkdómsgreiningu foreldris. Þau meðtaka upplýsingar á mismunandi vegu og aðlagast á mismunandi hátt. Viðbrögð barna geta farið eftir aldri, hvernig þau fá upplýsingarnar og fyrri reynslu af alvarlegum veikindum. Þar að auki getur líðan foreldra haft mikil áhrif á hvernig börn bregðast við. Börn skilja í gegnum foreldra sína hvað er að gerast í veröld þeirra.Börnin eru einkum viðkvæm í kringum sjúkdómsgreiningu, ef sjúkdómur versnar og ef miklar alvarlegar breytingar verða snögglega.
Algeng viðbrögð barna eru: áfall, afneitun, vantrú, hræðsla, kvíði, depurð, reiði, sektarkennd, líkamleg einkenni, svefnerfiðleikar, afturför í þroska og næringarvandamál.
Viðbrögð eftir aldri
Ungabörn taka eftir þegar aðal umönnunaraðili þeirra er ekki til staðar. Þau geta verið óróleg í slíkum tilfellum og grátið vegna aðskilnaðarkvíða. Þegar foreldri er veikt getur ungabarn skynjað kvíða og streitu foreldris og líka áhugaleysi frá því. Ungabörn geta ekki skilið sjúkdóma og það er auðveldara fyrir aðra að sinna ungabarninu og þörfum þess þegar foreldri getur það ekki. Ungabörn þurfa fyrst og fremst ástúð, líkamlega huggun, öryggi, mat og örvun. Ungabörn þurfa stöðugt augnsamband við þann sem fæðir það og sinnir þörfum þess.
1-3 ára börn eru farin að vera sjálfstæð og vilja ráða við umhverfi sitt. Þau skilja að hegðun þeirra hefur áhrif á aðra. Þau átta sig á ef þau er aðskilin frá foreldrum sínum. Þau eru farin að tala til að eiga samskipti við aðra en það sem þau sjá er mikilvægara en það sem þau heyra. Börn á þessum aldri bregðast við með gráti, neitun og reiði. Þau geta verið aðskilin frá foreldrum sínum í stuttan tíma en upplifa kvíða að vera hjá ókunnugum. Börn á þessum aldri verða oft ofurháð fríska foreldrinu.
Leikskólabörn 3-6 ára eru líka viðkvæm fyrir aðskilnaði og eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Þau tjá viðbrögð sín með gráti, öskri, geta verið ósamvinnuþýð og jafnvel eyðilagt hluti. Börn á þessum aldri eru atorkusöm og líkamlega miðuð. Þau hafa frjótt ímyndunarafl og hugsa í töfrum. Þau trúa því að það sem þau hugsa geti gerst raunverulega. Þau hafa oft mjög ákveðnar skoðanir og hafa mikla trú að skammtímameðferðum eins og plástri, pillum og áburðum. Tímarammi þeirra er stuttur. Þau búast við að veikindatími foreldris sé stuttur og verða mjög óörugg þegar svo verður ekki. Þau geta farið aftur í aldri í hegðun, vætt sig aftur, farið að tala barnamál, nota snuð og sjúga putta.
Skólabörn 6-12 ára geta sýnt sorg þegar þeim er skýrt frá sjúkdómsgreiningu. Þau geta líka sýnt reiði, pirring og vonbrigði. Þau geta yfirfært veikindi foreldra yfir á ósæmilega hegðun sína og ásakað sig fyrir veikindi foreldri síns. Þau geta upplifað sig varnarlausa sem getur leitt til enn frekari örvinglunar og reiði. Börn á þessum aldri eru vel meðvituð um alvarleika krabbameinsgreiningar. Þau hafa fengið einhverja reynslu af orðinu krabbamein hjá vinum eða ættingjum frá sjónvarpi eða öðru. Þau gera sér grein fyrir að sjúkdómnum geti fylgt dauði og eru hrædd. Þau geta haft samviskubit yfir hegðun sinni gagnvart sjúkdómsgreiningu og velt fyrir sér hvort streitan sem fylgir að hugsa um þau geti haft áhrif á þróun sjúkdómsins. Börn geta ásett sér að vera mjög góð til að auka ekki vanlíðan veika foreldris en spennan sem ríkir hjá fjölskyldu og skorturinn á athygli frá veika foreldrinu eykur vanlíðan þeirra, reiði og ótta sem þau svo aftur verða sakbitin yfir að upplifa.
Eldri börn velta fyrir sér hvort þau fái líka krabbamein þegar þau verða á sama aldri og foreldrar þeirra. Skólabörnum líður illa ef foreldrar geta ekki tekið þátt í einhverju skemmtilegu með þeim. Þau geta upplifað og tjáð mikla reiði gagnvart breytingum sem veikindin hafa valdið og ásakað lækninn og spítalann. Eldri börn hafa frekar stjórn á tilfinningum sínum og þess vegna verður fullorðna fólkið síður vart við erfiða líðan þeirra. Það þarf að spyrja eldri börn um líðan þeirra þar sem þau þurfa huggun líka. Sum börn forðast að vera heima og önnur skella sér í heimaskólaverkefni og tómstundir. Mörg skólabörn eru upptekin af orsök og afleiðingu og telja reykingar valda krabbameini. Þau telja það mikið óréttlæti þegar foreldri sem reykir ekki fær krabbamein.
Unglingar 13-18 ára geta brugðist mjög hart við krabbameinstíðindum. Margir unglingar geta náð að stjórna viðbrögðum sínum og tjá sig lítið. Aðrir unglingar lýsa sterklega reiði sinni og tilfinningum eins og þunglyndi og kvíða. Aðskilnaður við foreldri getur verið þeim erfiður. Þeir geta líka tekið ofur ábyrgð og neitað sér um að vera unglingar. Unglingar eru að leita eftir sjálfstæði fjarri foreldrum en þeir eru líka hræddir við að missa stjórn og sjálfstæði. Þeir eru að draga sig frá foreldrum en um leið að draga sig að þeim þegar þeir þurfa á því að halda vegna þess að sjálfstæði getur verið ógnandi. Þeir sveiflast til og frá tilfinningalega og sýna oft pirring.
Einkalíf unglinga skiptir þá miklu máli. Vinahópurinn er mikilvægt afl í lífi þeirra. Unglingur sækist eftir að vera eins og vinirnir og veikindi sem ekki er hægt að fela umheiminum gerir hann frábrugðinn hinum. Þar af leiðandi hefur unglingur tilhneigingu til að leyna veikindum fyrir vinum. Unglingurinn á það til að draga sig í hlé og athyglin fer í áhugamál sem fylgir aldri hans.
Umræða um veikindi foreldris getur verið erfið unglingnum og af tillitsemi vilja vinirnir ekki vera fyrri til að vekja umræður um veikindin. Jafnvel nánir vinir vita ekki hvort þeir eigi að spyrja um líðan foreldris og unglingurinn upplifir að vinirnir hafi ekki áhuga þar sem þeir spyrja ekki. Skortur á umræðunni um þetta viðkvæma málefni einangrar enn frekar unglinginn þegar stuðningur væri vel þeginn.