Landsbankinn afsalar merkingum á búningum íþróttafélaga til góðra málefna
Landsbankinn styrkir átta góð málefni fyrir fjórar milljónir króna
Samfélag í nýjan búning er yfirskrift nýrrar stefnu sem Landsbankinn hefur sett sér um stuðning bankans við íþróttafélög. Landsbankinn styrkir íþróttafélög um land allt og markmiðið er að tengja saman stuðning bankans við íþróttir og mannúðarmál.
Hugmyndafræði stefnunnar er nýstárleg. Landsbankinn afsalar sér öllum merkingum á búningum samstarfsfélaga og býður íþróttafélögunum að velja gott málefni til að setja á búninga sína. Samhliða verður stofnaður áheitasjóður fyrir málefnið og félagið. Fyrir hvern sigur í deildakeppni greiðir Landsbankinn tiltekna upphæð. Íþróttafélagið á þann kost að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum að heita á sig og málefnið. Öll áheit munu skiptast jafnt milli málefnis og íþróttafélags.
„Hin nýja hugmyndafræði bankans snýst um að tengja saman íþróttafélög og samtök eða félög sem láta að sér kveða í mannúðarmálum,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. „Með þessum hætti geta íþróttafélögin og stuðningsmenn þeirra eða aðrir styrktaraðilar tekið þátt í því með Landsbankanum að styðja við mannúðarmál. Stuðningur Landsbankans við íþróttaiðkun barna, unglinga og fullorðinna minnkar ekki, en heildar framlag til mannúðarmála eykst bæði beint og óbeint.”
Alls munu átta íþróttafélög hefja þessa vegferð með Landsbankanum og hvert þeirra hefur valið sitt málefni í samvinnu við bankann. Í tilefni af stofnun áheitasjóða fyrir málefnin átta mun Landsbankinn styrkja hvert þeirra um hálfa milljón króna, eða samtals fjórar milljónir króna.
Fyrirmyndir verkefnisins
Verkefnið Samfélag í nýjan búning á sér fyrirmyndir. Í tengslum við Landsbankadeild karla og kvenna stóð Landsbankinn fyrir verkefninu Skorað fyrir gott málefni á árunum 2006-2007. Bankinn greiddi þá ákveðna upphæð fyrir hvert mark sem liðin skoruðu í tilteknum umferðum Landsbankadeildarinnar og rann hún til málefna sem félögin völdu sér. Markmiðið var þá eins og nú að tengja saman stuðning við íþróttir og mannúðarmál.
Landsbankinn sækir ekki síður innblástur í framtak meistaraflokks kvenna í Aftureldingu sem síðustu þrjú ár hefur vakið athygli á árvekniátakinu Bleiku slaufunni með því að hafa hana framan á búningum liðsins. Með því safnar félagið áheitum hjá einstaklingum og fyrirtækjum fyrir hvert mark sem liðið skorar og er ágóðanum skipt milli málefnisins og félagsins. Landsbankinn og Afturelding hafa nú ákveðið að taka saman höndum um að Bleika slaufan verði áfram framan á búningum félagsins.
Val íþróttafélaganna
Landsbankinn lét íþróttafélögunum það eftir að velja sér málefni. Sum þeirra völdu málefni sem tengist heimabyggð og á það til að mynda við um Keflavík og Akureyri. Ungmennafélagið Fjölnir valdi Vímulausa æsku en forvarnarstarf er málaflokkur sem Ungmennafélagshreyfingin lætur sig mikið varða. Málefni hjartveikra eru ÍR-ingum hugleikin og sama gildir um val Fram á Ljósinu, knattspyrnudeildar Breiðabliks á Hringnum og handknattleiksdeildar Selfoss á Einstökum börnum.
Hin nýja stefna Landsbankans mun taka til allra helstu samninga bankans við íþróttahreyfinguna og á einkum við þar sem bankinn hefur með fjárstuðningi sínum fengið auglýsingasvæði á búningum.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.