Hlauptu þína eigin leið

- Ekki láta deigan síga Hlauptu þína leið - Höfum gaman af þessu Þín leið, þinn tími

Þúsund þakkir kæru vinir fyrir að leggja ykkar af mörkum til endurhæfingar krabbameinsgreindra!

Þó svo að aðstæður komi í veg fyrir að við hlaupum saman í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 22. ágúst næstkomandi þá vonum við innilega að þið reimið á ykkur strigaskóna og hlaupið ykkar eigin leið í ágúst.

Hlaupaátakið Hlauptu þína leið hefur nú verið hleypt af stokk af skipuleggjendum Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka og nú geta allir þeir sem vilja hlaupið þá vegalengd sem þeir vilja endurgjaldslaust frá 15.- 25. ágúst. Ef þú ert ekki skráður til leiks getur þú gert það hér.

Við í Ljósinu munum ekki láta deigan síga og höldum áfram að deila síðunum ykkar á Hlaupastyrk á samfélagsmiðlum og vonum að þið gerið slíkt hið sama.

Allir þeir sem hlaupa fyrir Ljósið munu eins og alltaf fá gefins sérmerktan bol. Bolirnir verða afhentir í Ljósinu frá og með mánudeginum 17. ágúst og  vonum að þið komið við og fáið hjá okkur brosið sem átti að mæta ykkur á skráningarhátíðinni.

Við hvetjum ykkur til að láta vini og ættingja, sem og okkur, vita hvar og hvenær þið ætlið að hlaupa. Þannig getum við reynt að tengjast enn betri tryggðarböndum og deilt gleðinni.

Á Instagram má nota @ljosid_endurhaefing og auðvitað #minleid #ljosid2020 #fyrirljosid.

Áheitasöfnun í gegnum maraþonið hefur verið mikilvæg tekjuöflun fyrir starfsemi Ljóssins en söfnunarleiðin hefur til að mynda gert okkur kleift að fella niður allan kostnað krabbameinsgreindra við líkamsrækt, námskeið, fræðslu og margt annað. Á síðasta ári setti Ljósið, ásamt 180 öðrum góðgerðarfélögum, áheitamet og hafa þeir fjármunir sem söfnuðust farið nærri að fullu í að standsetja glæsilegt nýtt hús sem komið var fyrir á lóð okkar í lok síðasta árs.

Enn og aftur TAKK og áfram þið!
Án ykkar væri starf Ljóssins svo sannarlega ekki á þeim góða stað og það er í dag.

Afhending sérmerktra íþróttabola

Í gegnum árin hafa þeir sem hlaupa fyrir Ljósið fengið afhenta sérmerkta íþróttaboli á skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons. Þó svo að hátíðin fari ekki fram verða bolirnir í boði öllum þeim sem vilja þiggja þá.

Afhending bolanna fer fram á Langholtsvegi 43 alla virka daga frá og með mánudeginum 17. ágúst.

Sérmerktir Macron bolir til sölu

Við bjóðum einnig til sölu vel gerða Macron íþróttaboli sem eru sérmerktir Ljósinu. Bolirnir fást í karla- og kvennasniðum í stærðum M – XXL og eru léttir og sérlega góðir hlaupabolir. Þeir eru kjörin eign fyrir þá  vilja stunda hreyfingu/líkamsrækt og vekja athygli á Ljósinu í leiðinni. Athugið að bolirnir koma í takmörkuðu upplagi.

Verð: 4.000

Sérmerktir Camelbak vatnsbrúsar til sölu

Camelbak Chute® Mag vatnsbrúsarnir eru fullkomnir í ræktina, fjallgönguna, í vinnuna eða bara til að hafa heima við. Það sem gerir þá enn flottari er að þeir eru sérmerktir Ljósinu. Sérstök hönnun tappans gerir það að verkum að hann leggst vel frá þegar maður drekkur en er alveg lekalaus þegar brúsinn er lokaður.

Verð: 3.500