Óskaspjöld og gylltur Hummer

Eftir Guðrúnu Friðriksdóttur iðjuþjálfa

 

Óskaspjöld

Guðrún Friðriksdóttir

Einu sinni, í upphafi árs 2020, enduðu sum námskeið í Ljósinu á því að fólk bjó sér til óskaspjald. Við útveguðum stórt karton fyrir hvern og einn, fullt af tímaritum, skæri og lím, allir sátu saman, flettu, klipptu út og límdu á kartonið.

Þessir óskaspjalda tímar voru vinsælir og flestum kom á óvart hvað það var gaman að klippa og líma. Að leyfa sér að föndra, jafnvel í fyrsta sinn í mörg ár og útkoman var eins fjölbreytt og hópurinn var stór. Það er nefnilega engin rétt leið til að búa til óskaspjald. Það má vera nákvæmlega eins og þú vilt og ég mæli með því að þú prufir að búa til þitt eigið.

 

Hvers vegna óskaspjald?

Óskaspjöld virka. Þau eru sýnileg áminning um drauma okkar og væntingar. Það sem við gerum á hverjum degi gerir okkur að því sem við erum. Þannig er það líka með það sem við hugsum. Það sem við sjáum á hverjum degi, hvort sem er með augunum eða í huganum, verður hluti af okkur. Óskaspjaldið er áminning um það sem okkur dreymir og hvert við stefnum. Óskaspjöldin geta líka hjálpað okkur að komast úr hjólförum og losa okkur úr viðjum vana sem eru ekki að gera okkur gott. Sumir safna sér í óskaspjald jafnóðum, geyma myndir sem heilla, texta sem hvetur, orð sem gleðja, og hafa þau fyrir augunum daglega. Aðrir taka frá tíma reglulega til að vinna í óskaspjaldinu sínu. Óskaspjald er persónuleg mynd af draumum þínum og spennandi óskaspjald kveikir eldmóð og hvetur þig áfram.

 

Hvernig býrðu óskaspjald til?

Það er engin ein rétt leið. Hvað hentar þér? Í Ljósinu notum við karton, tímarit, skæri og lím. Það þarf ekki að vera þannig. Það getur verið korktafla sem þú breytir daglega, í hverri viku eða í hverjum mánuði. Bætir við nýjum hlutum sem kveikja eldmóð og fjarlægir þá sem eru ekki lengur viðeigandi. Það getur verið rafræn mynd, ein eða fleiri, mósaíkmynd eða texti. Myndin getur verið skjáhvíla þín á símanum eða í tölvunni. Þú getur sett glæran dúk á eldhúsborðið og sett myndir undir það. Hvað virkar fyrir þig?

 

Reglurnar

Þú hefur algerlega frjálst val um hvernig þú býrð til þitt óskaspjald og á hvaða formi það er. Þetta er þitt óskaspjald, en það eru reglur:

Þú verður að sjá óskaspjaldið þitt daglega, helst oft á dag.

Ekki takmarka þig á neinn hátt. Ef þig dreymir um peninga, ekki klippa út mynd af tíkalli, klipptu út mynd af peningatankinum hans Jóakims Aðalandar.

Þú mátt ekki dæma. Ekki hugsa að það sé kjánalegt að vilja svartan og gylltan Hummer með hlébarðasætum. Ef það gleður þig leitaðu að mynd af stærsta og flottasta Hummerjeppanum sem þú finnur.

Ekki nota rökhugsun. Ef þú sérð mynd af 8 manna heitum potti sem er stærri en stofan þín og hún grípur athygli þína, geymdu hana. Settu hana á óskaspjaldið þitt. Draumar hafa ekkert með rökhugsun að gera, þess vegna eru þeir draumar.

 

Óskaspjald er ekki fyrir markmið. Óskaspjaldið er fyrir draumana. Óskaspjöld eiga að gleðja, fylla þig eldmóði, minna þig á það sem er mikilvægt og hjálpa þér að ákveða hvaða stefnu þú vilt taka.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.