,,Mér myndi nú alveg duga að halda jól með einu kerti”

Eftir Guðrúnu Áslaugu Einarsdóttur

Guðrún Áslaug Einarsdóttir

Nú eru bráðum jól. Hátíð sem snertir okkur á einstakan hátt. Þegar undirbúningur jólanna stóð sem hæst á mínu bernskuheimili sagði pabbi stundum: ,,Mér myndi nú alveg duga að halda jól með einu kerti”. Á þeim tíma fannst mér þetta vera algjörlega óhugsandi, enda tilhlökkunin mikil að fá gjafir, horfa á vel skreytt jólatréð í stofunni og finna rjúpnailminn leggja frá eldhúsinu. Með árunum hefur þessi setning þó fengið aðra merkingu í mínum huga. Í dag minnir hún mig á að í einfaldleikanum geta falist mikil gæði.

Hún minnir mig líka á, að hvernig sem aðstæður okkar eru þegar jólin ganga í garð, þá er boðskapur jólanna í eðli sínu einfaldur og breytist ekki. Við sjálf eigum okkar hefðir og venjur sem við tengjum jólum. Sumar af þeim eru alveg ómissandi og við getum varla hugsað okkur jól án þeirra. En í ár, þegar við höldum jól í heimsfaraldri, höfum við þurft að hugsa jólahefðirnar upp á nýtt og það gefur okkur tækifæri á að nálgast jólin á nýjan hátt.

Hverjar sem kringumstæður þínar eru þá vona ég að þú getir tekið á móti jólunum á þinn hátt og náir að glæða þau merkingu. Kannski dugar að halda jól með einu kerti og e.t.v. geta einfaldari jól gefið enn dýpri jólagleði og frið í hjarta.

Með ósk um gleðileg jól.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.