Hvernig snýst iðjuhjólið þitt?

Eftir Guðnýju Katrínu Einarsdóttur iðjuþjálfa

Guðný Katrín Einarsdóttir

Þeir sem verið hafa í Ljósinu í nokkurn tíma hafa eflaust heyrt iðjuþjálfa tala um jafnvægi í daglegu lífi, enda frasi sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur. Með því er átt við að jafnvægi sé á milli mismunandi hlutverka og iðju í okkar lífi, við náum að sinna mismunandi þörfum okkar og hlutverkum, án þess að myndist of mikil togstreita eða álag. Öfgarnar í hina áttina þarf líka að forðast, ef við höfum of lítið að gera fáum við ekki nauðsynlega örvun til að eflast og viðhalda heilsu.

Blessað jafnvægið

En hvernig náum við þessu blessaða jafnvægi? Þá er gott að hugleiða í hvað stundirnar í sólarhringnum eru nýttar. Til þess má nota matstækið Iðjuhjólið – verkfæri sem iðjuþjálfar Ljóssins nota gjarna með sínu fólki.

Iðjuhjólið gefur yfirsýn yfir hvernig stundum sólarhringsins er varið. Hver „sneið“ táknar eina klukkustund. Hugsað er til baka um síðasta sólarhringinn eða dæmigerðan sólarhring og merkt er inn hver er megin iðjan sem við sinnum hverja klukkustund.

Svo er þetta talið saman og skoðað, t.d. hversu margar klukkustundir notar þú í svefn og aðra hvíld? Hversu margar stundir notar þú í að sinna sjálfum/sjálfri þér – klæðast og snyrta sig, nærast, hugsa um heilsuna? Hversu margar stundir notar þú í að leika þér og sinna áhugamálum? En hin ýmsu störf, launaða vinnu, nám umönnun og heimilisstörf? Þetta er gagnlegt að skoða bæði fyrir dæmigerðan virkan dag og dæmigerðan frídag.

Í hvað verjum við tímanum?

Þá er gott að staldra við og skoða þetta nánar. Er sólarhringurinn eins og ég vil hafa hann? Ver ég tíma mínum í það sem skiptir mig mestu máli? Upplifi ég streitu af því að ég er að reyna að troða of miklu inn eða er kannski of lítið að gera, þannig að mér leiðist og næ ekki að láta hæfileika mína blómstra? Við viljum ekki vera eins og hamsturinn á hjólinu, hlaupa hring eftir hring, sífellt að reyna að ná í skottið á okkur. Tökum meðvitaða ákvörðun og setjum okkur markmið – hvað viljum við verja meiri tíma í og hvað viljum við verja minni tíma í?

Lífið er síbreytilegt og inn koma ný verkefni og áskoranir, að halda jafnvægi er því ævilangt verkefni.

Ef þú ert í þjónustu hjá Ljósinu og iðjuhjólið er verfæri sem þú hefur áhuga á að kynnast betur eða nýta endilega ræddu málið við þinn iðjuþjálfa.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.