Fylgdu hjartanu inn í jólin

eftir Guðrúnu Friðriksdóttur, iðjuþjálfa og Elinborgu Hákonardóttur, umsjónamann handverks

Við erum mismikil jólabörn. Það er hvorki gott né slæmt að við séum misspennt fyrir jólunum heldur er það bara þannig. Sumir byrja að tala um jólin, aðventuna og allt sem tengist þessu tímabili ársins strax eftir Verslunarmannahelgi. Njóta, ekki þjóta, skreyta, pakka inn, senda kort, baka sörur, drekka kakó og borða piparkökur, samvera, borðspil, samsöngur og jólalög. En aðventan er ekki gleðileg fyrir alla og margir finna fyrir einmanaleika, depurð og jafnvel kvíða þegar nær dregur jólum.

Þá getur verið að hin mestu jólabörn finni fyrir kvíða fyrir jólunum eftir greiningu, veikindi og meðferðir. Orkuleysi getur spilað inní, hvernig getur þú haft jólin eins og þú vilt hafa þau ef þú hefur ekki orku í það? Ef þú finnur fyrir meðferðarþoku og glímir við framtaksleysi eru jólin risastórt og flókið verkefni. Þá er sannarlega annað ástand í samfélaginu en hefur áður verið. Sumir myndu segja fordæmalaus staða. Hvernig verða jól á tímum Covid 19?

Gamlar hefðir, nýjar hefðir

Hvað er til ráða? Hverjir eru möguleikarnir í þessu ástandi? Er óumflýjanlega neikvætt að gera breytingar á hefðum? Hvað er spennandi við að gera breytingar á aðventunni? Hvaða tækifæri geta falist í því að breyta jólahefðunum?

Hefur þú velt fyrir þér hvað það er sem þér finnst vera virkilega jólalegt? Hvað er það sem skiptir þig máli varðandi þennan tíma? Heldur þú uppá jólin af trúarlegum ástæðum? Vegna þess að daginn fer að lengja eftir vetrarsólstöðurnar? Vegna þess að þú hittir fólkið þitt og færð að verja tíma með því? Eða er það vegna þess að þér finnst gaman að gefa gjafir? Eða að fá gjafir?

Hvernig væri að leggja rækt við og gera meira af því sem þú nýtur? Búa til nýjar hefðir sem endurspegla betur það sem gleður þig mest á þessum árstíma? Viltu rækta trúnna, ættingja, vini, eigið sjálf eða umhverfi þitt?

Aðventan

Það er hægt að gera dagana fram að jólum spennandi á marga mismunandi vegu. Hefur þú gaman af jólaljósum? Hvernig væri að fara í gönguferð eða bíltúr og skoða jólaskreytingar víðs vegar um borgina? Hvernig skreytir fólk á Kjalarnesi? Hvaða gata í hverfinu þínu er best skreytt? Hvað eru margir jólasveinar sýnilegir í götunni þinni?

Ef þú hefur gaman af því að gefa gjafir má vel byrja á því á aðventunni. Umhyggjugjafir til vina og vandamanna geta verið margfalt betri en en dýrar gjafir úr búðinni. Umhyggjugjafir þurfa hvorki að vera dýrar, tímafrekar né stórar. Átt þú uppáhalds smákökuuppskrift? Skrifaðu hana upp, notaðu liti, fallegan pappír og tileinkaðu uppskriftina þeim sem fær hana. Kannski verður heppnin með þér og manneskjan sem fær uppskriftina bakar smákökur fyrir þig! Kannt þú að prjóna? Eða smíða? Búðu til lítið jólatré úr garni eða við og skrifaðu skilaboð með. Það er líka hægt að kaupa gjafir á netinu og öll fjölskyldan getur gert það saman. Það gæti líka orðið að notalegra. Auðveldara er að fara á milli verslana, engin umferð, ekkert mál að finna bílastæði, börnin verða minna þreytt en ef þau þurfa að labba á milli staða og þegar allir eru búnir að fá nóg er mun styttra heim.

Vandaðu þig við að skrifa jólakortin. Fleiri og fleiri sleppa því að skrifa jólakort en hvað ef þú fækkar þeim og gerir þau persónulegri? Þú getur gefið þér tíma, jafnvel töluverðan tíma, í að hugsa til fólks sem skiptir þig máli og skrifað þeim jólakort. Rifjað upp minningar og stungið upp á hvernig þið getið skapað nýjar á næsta ári.

Jólabækurnar? Hefur þú ekki eirð í þér til að lesa? Hvað með að hlusta? Hvað með að fylgjast með umræðunum um jólabækurnar í sjónvarpinu og á netmiðlum? Hlusta á upplestra höfunda (sem munu margir fara fram á netinu) og halda utan um hvaða bækur þú ætlar að lesa seinna, kannski í sólinni næsta sumar?

Það þarf ekki að gera allt á aðventunni en það er gleðilegt að gera það sem gleður. Hvað gleður þig?

Jólin

Hvaða minningar vilt þú eiga um jólin? Viltu að þær tengist matnum eða gjöfunum? Hvað viltu gera á á hverjum hátíðardegi? Jólin eru tímabil en ekki eitt kvöld og þú getur velt því fyrir þér hvað þú vilt gera á hverjum degi. Ef þú vilt forðast jólaboð og fjölmenni gætir þú skapað þér nýjar hefðir og haft þær alveg eftir þínu höfði. Ekki þannig að þú verðir að gera allt í einrúmi. Það er hægt að hafa samverustundir á Zoom með smákökum og kakói og þá er fullkomlega löglegt að vera á náttfötunum. Hvern hefur ekki langað til að mæta á náttfötum í jólaboð? Það er líka hægt að spila borðspil á Zoom, horfa á bíómynd eða skoða saman myndir úr ferðalagi sem þið fóruð í. Stafrænir möguleikar eru ein leið, og sú öruggasta árið 2020, til að eiga í samskiptum við fólkið sem skiptir okkur máli.

Vissulega kemur skjásamvist ekki í staðinn fyrir að vera raunverulega í návist við aðra einstaklinga en það er hægt að sjá marga kosti. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að veitingarnar klárist, að Jói frændi mæti svangur og klári laxinn. Enginn þarf að hita bílinn og skafa hann að kvöldinu loknu og það er pláss fyrir alla í sófanum og uppáhalds stólunum sínum og hafa það notalegt undir teppi.

Jólin árið 2020 verða öðruvísi. Þau verða alls ekki eins og við ímynduðum okkur þau í byrjun árs. En ef ekkert breytist þá breytist ekkert. Hvernig breytingar vilt þú gera á þínum hefðum? Getur þú litið á næstu vikur sem tækifæri til að fylgja hjartanu inn í jólin?

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.