Eftir Ernu Magnúsdóttur forstöðukonu Ljóssins 

 

Erna Magnúsdóttir

Ljósið og hugmyndafræði þjónandi forystu

Í febrúar 2019 útskrifaðist ég úr meistaranámi við Háskólann á Bifröst, í forystu og stjórnun.  Ástæðan fyrir því að ég valdi þetta nám var áhugi minn á hugmyndafræði sem heitir Þjónandi forysta en sú hugmyndafræði hefur verið að ryðja sér til rúms sl. áratugi. Markmið okkar í Ljósinu er annars vegar að hlúa að fólki sem hefur fengið krabbamein og þeirra aðstandendum en ekki er síður mikilvægt að hlúa að starfsfólkinu svo þau séu í góðu jafnvægi til að takast á við verkefni dagsins sem eru mörg og mismunandi.

 

Hvað er þjónandi forysta.

Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem varpar nýju ljósi á kenningar í stjórnunar- og leiðtogafræðum með áherslum á þjónustu með siðferði, ábyrgð og hagsmuni heildar sem grunnstoðir. Sá sem kom fram með þessa hugmyndafræði hét Robert K. Greenleaf. Hann segir að sá sem gegni forystuhlutverki er fyrst þjónn en síðan leiðtogi. Slíkur einstaklingur er ólíkur þeim sem er fyrst leiðtogi, líklega vegna takmarkaðrar löngunar til valda og efnislegra gæða. Munurinn er að þjónninn reynir að mæta þörfum þeirra sem hann þjónar. Með þjónandi forystu er farið frá því að stjórnandinn noti stýringu og yfir í leiðsögn, frá eintali í samtal, frá foringja til jafningja og frá valdi til þjónustu.

 

Hvernig passar Ljósið inn í  hugmyndafræði þjónandi forystu?

Greenleaf lagði ríka áherslu á hugtakið, markmið sem hann skýrði sem hinn alltumfaðmandi tilgang, stóran draum eða hugsjón. Það má segja að stofnun Ljóssins sé í raun draumur sem varð að veruleika og í gegnum árin hafa margir sem koma að Ljósinu; þjónustuþegar, starfsmenn, og styrktaraðilar smitast af draumnum og hugsjóninni. Sigrún Gunnarsdóttir prófessor leiðir þekkingarsetur um þjónandi forystu hér á Íslandi en í doktorsritgerð sinni  ( 2011) greindi hún þrjú megin stef út frá hugmyndum Greenleaf í þjónandi forystu. Þau eru einlægur áhugi á velferð og hugmyndum annarra, innri styrkur og sjálfsþekking, að sjá til framtíðar og hafa skýra sýn á hugsjón. Ég tel að þessi hugmyndafræði eigi margt sameiginlegt með starfsemi Ljóssins.

 

 Einlægur áhugi

Ég hef alltaf haft einlægan áhuga á velferð og högum krabbameinsgreindra og fékk til liðs við mig fólk sem vildi láta drauminn um endurhæfingarmiðstöð rætast. Ljósið var stofnað haustið 2005 og drifið áfram af hugsjón fremur en gróða. Fyrsta stoðin í þjónandi forystu er einlægur áhugi á högum annarra. Að hlusta eftir þörfinni var upphafið að starfseminni. Að greinast með krabbamein hefur víðtæk áhrif á einstaklinginn sjálfan og fjölskylduna. Þörfin fyrir stuðning var mikil því bataferlið eftir greiningu er oft langt og strangt. Greenleaf lýsir því í fyrsta riti sínu að góð hlustun sé skýrasta merki um einlægan áhuga og vilja til að kynnast hugmyndum annarra og efla hag þeirra. Sannur þjónn hlustar á viðhorf, skoðanir og hugmyndir og er það eitt  aðaleinkenni og það mikilvægasta sem þjónandi leiðtogi þjálfar til að ná góðum árangri í störfum sínum.

Hugmyndafræðin í starfsemi Ljóssins er virðing fyrir öðrum, samvinna og kærleikur.

Einlægur áhugi endurspeglar starfið og er áherslan á styðjandi umhverfi, bæði fyrir þjónustuþegana og starfsfólk. Rannsóknir um þjónandi forystu á Íslandi og erlendis eiga það sammerkt að niðurstöður hafa undirstrikað gildi þjónandi forystu fyrir ánægju í starfi og árangur starfsfólks.

Í rannsóknum eru störf í  heilbrigðisþjónustu  lýst sem  verkefni sem fela í sér andlegar og tilfinningarlegar kröfur og skjólstæðingar hafa ákveðnar væntingar til þjónustunnar. Starfsfólkið er þjálfað til að mæta  kröfunum, og stjórnun og forysta tekur mið af því. Sýna þarf skjólstæðingum skilning, veita þeim besta mögulegan stuðning sem er tilfinninglega viðeigandi. Starfsfólk Ljóssins hefur það að leiðarljósi að hlusta og sýna þjónustuþegum sínum besta mögulegan skilning með einlægum áhuga á högum þeirra  og þörfum. Galdurinn á bak við árangur og starfsánægju er stjórnun í anda þjónandi forystu.

 

Efling

Krabbameinsmeðferð getur dregið úr orku og  frumkvæði. Í Ljósinu er notuð hugmyndafræði valdeflingar „empowerment“, og þjónustuþegar stýra eigin vegferð og taka þátt í ákvörðunum. Allir eiga að njóta sömu þjónustu, siðareglur eru skráðar og starfsfólk veit að starfið skal einkennast af virðingu, ábyrgð, heiðarleika, trausti og samvinnu.  Hlustun af alúð ýtir undir frumkvæði og sjálfsöryggi þeirra sem leita til Ljóssins. Þeim er sýnd virðing, geta hvers og eins er metin og þau  hvött til að deila upplýsingum til annarra  í sömu stöðu. Þessir þættir eru einkennandi í hugmyndafræði þjónandi forystu.

 

Framtíðarsýn Ljóssins

Ljósið er leiðandi og framsækið afl í endurhæfingu krabbameinsgreindra. Ljósið leggur áherslu á að vera í fremstu röð hvað varðar þjónustu og þjónustulund og heldur áfram að byggja upp sérþekkingu.

Í stefnumótun Ljósins árið 2014 völdu starfsfólk Ljóssins gildin; gróska, gleði, heilindi og fagmennska.

Greenleaf telur hugsjón, tilgang og markmið hafa sértaka og djúpa merkingu í starfi fyrirtækja. Hugsjón og hugmyndir sameinar fólk, gefur starfi þess merkingu, glæðir von og mótar framtíðarsýn. Skylda leiðtogans og starfsfólks í þjónandi forystu er sjá tækifærin og möguleika og hlutverk þeirra er að sjá hvað þau geta gert til að láta hinn sameiginlega draum rætast. Þannig hugafar eflir starfsfólkið og glæðir tillfinningu fyrir gildi starfanna.

 

Margt líkt með hugmyndafræði Ljóssins og þjónandi forystu

Eftir að hafa borið saman hugmyndafræði Greenleaf um þjónandi forystu og rýnt í rannsóknir hérlendis sem erlendis má finna margt í starfsemi Ljóssins sem samræmist hugmyndafræðinni.

Það má segja að starfsfólk Ljóssins starfi í anda þjónandi forystu þar sem þau leitast við að efla aðra og mæta helstu þörfum þeirra sem þau þjóna með einlægum áhuga, hlustun og virðingu í samskiptum. Yfirlýst stefna er um að stjórnandi efli samstarfsfólk sitt og beri hag þeirra fyrir brjósti.

Greenleaf, R. K. (2008). The Servant as Leader. Westfield: The Greenleaf Center for Servant Leadership.
Robert k. Greenleaf (1904-1990) was the founder of the modern Servant leadership movement and the Greenleaf Center for Servant Leadership.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér bókina betur geta nálgast hana hér á íslensku

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.