eftir Ingu Rán Gunnarsdóttur

Inga Rán, sjúkraþjálfari í Ljósinu

Það er mikilvægt fyrir konur jafnt sem karla, sem gangast undir aðgerð á brjósti, að huga vel að þjálfun og hreyfingu að aðgerð lokinni. Við inngrip sem þetta er ekkert óeðlilegt að skerðing verði á hreyfingu í kjölfarið og til að sporna gegn þeirri þróun er mikilvægt að byrja snemma að vinna gegn skerðingunni með réttum æfingum. Mikilvægt er að byrja mjög rólega og fylgja fyrirmælum frá læknum og sjúkraþjálfurum af spítalanum fyrstu 2-4 vikurnar eða á meðan skurðir eru að gróa.

Þolinmæðin skiptir máli
Að þeim tíma liðnum, ef allt hefur gengið að óskum og þið finnið að líkaminn er tilbúinn, er mikilvægt að byrja rólega að auka við æfingarnar og stækka hreyfiferlana, þó án þess að fara yfir sársaukamörk. Það skilar bestum árangri að gera fleiri endurtekningar og vera þolinmóður.

Skynsamlegt er að fá leiðbeiningar hjá fagaðilum hvaða æfingar henta á þessu tímabili, til dæmis hjá þjálfurum Ljóssins. Við hjá Ljósinu bjóðum einnig upp á æfingatíma sérsniðna að þessum æfingafasa sem nefnist Eftir brjóstaskurð. Eins er hægt að skoða video á heimasíðunni sem gott er að gera heima.

Þegar 6 vikur eru liðnar frá skurðaðgerð og allt hefur gengið að óskum er óhætt að byrja að stunda kröftugri þjálfun, það er að bæta styrktar- og þolþjálfun við liðkandi æfingar. Það er mælt með að halda áfram að gera liðkandi æfingar daglega þar til fullum hreyfiferli er náð og viðhaldsþjálfun eftir það 1-2 sinnum í viku. Mælst er til að byrja rólega á styrktar- og þolþjálfun undir handleiðslu fagaðila, hlusta á líkamann og auka við álagið jafnt og þétt.

En hverjar eru aukaverkanirnar?
Helstu aukaverkanir eftir aðgerð á brjósti eru strengjamyndum og sogæðabjúgur, og gott að vera vakandi fyrir þeim. Strengir eru fyrirbæri sem geta myndast eftir aðgerð á brjósti og koma oftast fram innan 8 vikna frá aðgerð. Þetta getur verið þykkur strengur og/eða nokkrir þynnri þræðir sem liggja frá holhönd eða bringu og niður í upphandlegg eða jafnvel lengra niður. Strengirnir eru yfirleitt mjög sársaukafullir og skerða hreyfigetu talsvert.

Helstu aukaverkanir eftir aðgerð á brjósti eru strengjamyndum og sogæðabjúgur, og gott að vera vakandi fyrir þeim.

Mikilvægt er að fá aðstoð hjá fagaðila og fara varlega í að mýkja upp strengina, og þannig auka hreyfanleika þeirra. Sjúkraþjálfarar vinna á strengjum með mjúkpartameðferð – léttum teygjum og æfingum. Verkjalyf geta hjálpað ef verkir koma í veg fyrir hreyfingu og teygjur.

Að vinna með sogæðabjúg
Sogæðabjúgur er vökvasöfnun sem verður vegna skertrar virkni sogæðakerfisins og kemur yfirleitt einungis fram í einum útlim. Byrjar oftast sem aukin spenna í húð, þung tilfinning í handlegg og síðan ummálsaukning. Aukin hætta er á myndun sogæðabjúgs eftir aðgerð á brjósti ef eitlar eru fjarlægðir samtímis og því fleiri eitlar, því meiri áhætta.

Einnig eykst hættan á myndun sogæðabjúgs við geislun yfir eitlasvæði. Þó er það þannig að minnihluti fær sogæðabjúg eftir aðgerð og mesta hættan er fyrstu 2 árin eftir aðgerð. Ef þú finnur fyrir einkennum sogæðabjúgs er mikilvægt að leita sér faglegrar aðstoðar sem fyrst, hjá sjúkraþjálfara með sérhæfingu í meðhöndlun sogæðabjúgs og er einn slíkur starfandi í Ljósinu.

Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr líkum á myndun sogæðabjúgs, eins og að viðhalda réttri líkamsþyngd, borða holla fæðu og drekka vel af vatni. Einnig að stunda líkamsrækt þar sem byrjað er rólega og álagið aukið jafnt og þétt. Sýna þarf varkárni í sambandi við hita og kulda, til dæmis heita og kalda potta, hugsa vel um húðina, forðast að fá sár á bjúgsvæðið og passa að fatnaður, töskur og skart þrengi hvergi að.

Að lokum langar mig að hvetja allar konur og menn sem nýlega hafa gengist undir aðgerð á brjósti eða eru að bíða eftir aðgerð, að vera í sambandi við þjálfara Ljóssins til að fá ráðleggingar og faglega aðstoð.

Hægt er að senda póst á thjalfarar@ljosid.is eða hringja:

  • Áslaug, sjúkraþjálfari: 620-6755
  • Guðrún Erla, íþróttafræðingur: 620-6799
  • Gyða Rán, sjúkraþjálfari: 620-4750

Gangi ykkur vel.

Kær kveðja,

Inga Rán

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.