„Sorgir og sigrar“ Kötru til styrktar Ljósinu

Keramiklistakonan Katrín Gísladóttir Sedlacek, Katra, sýnir nú verk sitt Sorgir og sigrar á samsýningu sem stendur yfir í Gallery Grásteini. Verkið býður hún til sölu og mun öll upphæðin renna til Ljóssins.

„Hugmyndin að þessu verki kviknaði þegar ég hugsaði um þá sem ég hef misst úr þessum hræðilega sjúkdómi en jafnframt þá sem ég þekki sem hafa sigrast á honum,“ segir Katrín okkur um upphaf verksins.

„Ég á vinkonu sem talaði svo fallega um Ljósið og hefur notið þar aðstoðar í sinni baráttu við krabbamein, og hún talaði svo vel og hlýlega um starfið að mig langaði að reyna við þetta verkefni,“ bætir hún við.

Hreyfing, frelsi og kærleikur

Katrín hefur unnið að keramiki í tuttugu ár en fyrir átta árum hóf hún að vinna með hestaskúlptúra. Sem mikil hestakona í aldarfjórðung hefur Katrín sterka tengingu við hestinn og útskýrir að hesturinn tákni fyrir hana hreyfingu og frelsi en með kórónunni komi kærleikurinn.

Verk Katrínar hafa hlotið miklar og góðar viðtökur hérlendis og erlendis en hún hefur til að mynda sýnt í Art 67 galleríi og Hjertholm galleri í Bergen.

Verkið er sem áður segir til sýnis og sölu í Gallery Grásteini og stendur sýningin yfir út október. Sýningin er í tilefni af bleikum október og eiga verkin það öll sameiginleg að tengjast krabbameini með einum eða öðrum hætti.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.