Söfnunin heldur áfram þó maraþon fari ekki fram í ár

Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur tekið þá erfiðu ákvörðun að hætta við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ár vegna Covid19. Áheitasöfnun í gegnum maraþonið hefur verið mikilvæg tekjuöflun fyrir starfsemi Ljóssins en söfnunarleiðin hefur til að mynd gert okkur kleift að fella niður allan kostnað krabbameinsgreindra við líkamsrækt, námskeið, fræðslu og margt annað.

Á síðasta ári setti Ljósið, ásamt 180 öðrum góðgerðarfélögum, áheitamet og hafa þeir fjármunir sem söfnuðust farið nærri að fullu í að standsetja glæsilegt nýtt hús sem komið var fyrir á lóð okkar í lok síðasta árs.

ÍBR hefur gefið út að öll áheit sem hafa borist munu renna til góðgerðarfélaganna í ár þrátt fyrir að hlaupið fari ekki fram og leita þau nú leiða til að söfnunin geti haldið áfram. Við í Ljósinu erum innilega þakklát öllum þeim sem hafa skráð sig á síðu okkar á Hlaupastyrk en í gær höfðu yfir 150 manns skráð sig til leiks auk hlaupahópa.

Þar til frekari upplýsingar berast frá skipuleggjendum maraþonsins um aðrar leiðir til að halda söfnuninni áfram munum við halda áfram að deila okkar ótrúlegu hlaupagörpum.

Við hvetjum auk þess alla til þess að halda áfram að ganga, skokka og hlaupa þó svo að viðburðurinn fari ekki fram.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.