Þið glæðið Ljósið lífi – Skilaboð til Ljósbera

Elskulegu Ljósberar.

Ljósið er 15 ára í ár.  Frá stofnun höfum við upplifað ótrúlega miklar breytingar. Við byrjuðum með hugsjón um að stofna litla endurhæfingu fyrir krabbameinsgreinda þar sem fyrsti fundurinn var haldinn heima í stofunni minni með áhugasömu fólki sem vildi gera allt til að hjálpa til við að gera drauminn að veruleika.  Í dag erum við með tvö stór hús á Langholtsveginum þar sem meðal annars má finna glæsilegan fullbúinn tækjasal, fyrirlestrasal og handverkssal, þetta er draumur sem mér óraði ekki fyrir árið 2005.

En nú göngum við í Ljósinu í gegnum einhverja skrýtnustu tíma í sögu okkar. Mínar áhyggjur snérust alltaf um að við þyrftum að loka vegna þess að við fengjum ekki fjármagn. Hverjum hefði dottið í hug að við þyrftum að loka vegna heimsfaraldurs.

Það er einmannalegt að sitja í húsnæði Ljóssins og vinna í tómu húsi.  Þið glæðið Ljósið lífi. Þið með öllum ykkar áskorunum, fjölbreytileika, tilfinningum, gleði og sorg gerið þetta hús að því sem það er.

Allur sá kærleikur, samheldni, áræðni og þroski sem fylgir því að fá að hjálpa ykkur á oft erfiðustu stundum í lífi ykkar er ómetanlegt og sárt að geta ekki galopnað húsið strax í dag eins og það hefur alltaf verið.  Galopið hús með stóran faðm, það var minn draumur í upphafi og verður til framtíðar.

En á þessum skrýtnu tímum má líka sjá eitthvað jákvætt.  Starfsfólk Ljóssins hefur lagt ómælda vinnu í að rafvæða þjónustuna.  Við erum búin að setja inn allskonar pistla til uppbyggingar fyrir sálina.  Það eru ótrúlega flott æfingarvideo komin inn á heimasíðuna og ættu að vera ykkur til hvatningar og stuðnings, að ekki sé talað um matreiðslu Daivu og dóttur hennar.

Við bíðum spennt eftir að mega opna aftur.  Það verður gleðilegt að geta haldið áfram að hjálpa ykkur í persónu við að byggja upp andlegt og líkamlegt þrek og þol.  Eins og staðan er í dag þá tökum við einn dag í einu og getum ekki sagt nákvæmlega hvernig þetta verður eftir 4. maí. en það skýrist betur þegar nær dregur.

Farið vel með ykkur öll sem eitt.

Með ást og umhyggju.

Erna Magnúsdóttir,
Forstöðukona Ljóssins

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.