Vertu í bandi – Það skiptir máli

eftir Guðrúnu Friðriksdóttur, iðjuþjálfa í Ljósinu

„Ég ætlaði einmitt að hafa samband við þig“ – hefur þú heyrt þetta? Hefur þú sagt þetta? Það geta alls konar ástæður legið að baki þegar við höfum ekki samband við fólk. Það er of mikið að gerast í kringum okkur eða of lítið að gerast og okkur finnst við ekki hafa neitt að segja. Við getum líka verið orðin þreytt á að tala um sama hlutinn og samskiptalýja kemur í veg fyrir að við höfum samband eða svörum símanum.

 

Það er í lagi

Það hafa allir leyfi til að vera í eins miklum eða litlum samskiptum og þeir vilja en það skiptir máli að vera meðvituð þegar við veljum að hafa samband eða sleppum því. Hvers vegna vilt þú ekki heyra í ákveðnu fólki? Myndir þú vilja heyra í einhverjum en nennir ekki að tala um kórónavírusinn? Eða veikindi? Eða stjórnmál?

 

Þú þarft þess ekki

Þarf að tala meira um samkomubannið? Í nærandi samskiptum er oft ekki verið að ræða um hluti, fólk eða það sem er að gerast. Það er verið að ræða hugmyndir, drauma eða velta hlutunum fyrir sér. Þú getur óskað eftir því að vera í nærandi samskiptum við fjölskyldu þína og vini og talað um það sem skiptir bæði þig og þau máli ef þú talar um það upphátt. Þú getur leyft þér þá hreinskilni að þig langi til að spjalla í smá stund (eða í allan dag) um eitthvað annað en það sem er að gerast akkúrat núna og vonandi færðu að heyra hvað brennur á þeim.

 

Um hvað viltu tala?

Hefurðu velt fyrir þér hvort og hvernig ættbókafærðir og hreinræktaðir hundar eru öðruvísi en blendingar? Hvort flýtur Suzuki Jimmy á 35 tommu eða Patrol á 42 betur? Er betra að kaupa mikið mikróskorin dekk eða minna mikróskorin harðkornadekk, miðað við að þú sért aðallega að keyra innanbæjar í Reykjavík? Sjálf hef ég trú á blendingum, bílstjórum og mig langar til að ferðast með strætó til að þurfa ekki að taka ákvörðun um míkróskurð. Hvað finnst þér?

Að vera í sambandi við fólk þýðir ekki að þú neyðist til að tala um það sem þú vilt ekki ræða. Meðvitund um hvað það er sem þú vilt ræða getur hins vegar auðveldað þér að vera í sambandi við fólkið þitt. Að vera í sambandi skiptir nefnilega máli.

Manneskjan er ekki gerð fyrir einangrun, við hefðum ekki lifað af í þróunarsögulegu tilliti ef við værum alltaf ein og erfðamengið okkar kallar á einhver samskipti. Okkar er bara að vera meðvituð um hvers konar samskipti gefa okkur kraft, styrk og hvetja okkur áfram í lífinu,  leitast eftir þeim og gefa af okkur á móti.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.