Skrifa niður og strika yfir!

eftir Guðbjörgu Dóru Tryggvadóttur, iðjuþjálfa í Ljósinu

Þreyta og orkuleysi? Nú kinka margir kolli. Við vitum að fylgifiskar veikindanna er bæði líkamleg og andleg þreyta ásamt orkuleysi.

Guðbjörg Dóra, iðjuþjálfi í Ljósinu

Stundum er ákveðið mynstur í því.

Skoðaðu hvort þú sjáir mynstur hjá þér með því að spyrja þig:

  • Ertu atorkusamari á morgnana eða einmitt frekar síðdegis?
  • Hvað gerir þú yfirleitt á morgnana sem gæti alveg eins verið gert síðdegis eða á kvöldin?
  • Ættir þú að breyta í hvaða röð þú gerir hlutina – má það? – getur þú það? – hvað hentar þér?

Ef þú býrð með öðrum þarf að samræma með þeim. Um að gera að prófa kannski í nokkra daga og mundu, það má breyta aftur til baka. Leyfðu þér að prófa að breyta, Stundum fjallar það um að hætta að gera eitthvað tímabundið – setja það í hólf sem heitir; „á bið um sinn“, annað hólf héti „í endurskoðun“.

Stundum er ekkert mynstur og flestir dagar eru ófyrirsjáanlegir – hvað þá?

Skrifaðu niður fyrirfram áætlaðar athafnir dagsins og strikaðu yfir þær sem þú komst í verk – reynist mörgum hvetjandi.

Sú upplifum að hafa áorkað einhverju er okkur svo mikilvæg og eflir okkur. Mundu líka að skrifa niður „litlu hlutina“ s.s. bursta tennur, draga frá svefnherbergisglugganum, þurrka af borðinu.

Önnur aðferð er að setjast niður í lok dags og fara yfir daginn og skrifa þær athafnir sem þú framkvæmdir, gleðjast yfir því sem gert var í stað þess að ergja þig á því sem hefði átt að vera gert. Þarftu að stýra samskiptum betur? Hvenær dagsins hentar þér best að vera í samskiptum við aðra en fjölskylduna? Viltu auka samskipti við Siggu frænku, draga aðeins úr samskiptum við Olla frænda. Viltu kannski mynda fleiri hópa á facebook; hafa nokkra fámenna eða færri og fjölmennari?

Hér er hugmynd af flokkum sem ná yfir þá iðju/athafnir sem tengjast daglegu lífi og hægt að hafa til hliðsjónar þegar skrifað er á listann.

• Eigin umsjá (sturta, tannburstun, o.fl.)
• Heimilisstörf
• Atvinnutengt
• Gleðiaukandi
• Hreyfing; inni, úti
• Áhugamál
• Hvíld
• Læra eitthvað nýtt
• Samskipti

Virkjum forvitnina og sköpunarkraftinn í óvenjulegum aðstæðum og leyfum okkur að skoða og finna hvað hentar á hverjum tíma og munum að það má breyta!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.