Heilög þrenning og hamingjan – Gleði, geðrækt og góðverk

eftir Sigríði Kristínu Gísladóttur, iðjuþjálfa í Ljósinu

Sigríður Kristín Gísladóttir iðjuþjálfi í Ljósinu

Í ýmsum ævintýrum og bröndurum gerast hlutirnir þrisvar áður en þeir virka. Að endurtaka þrisvar sinnum hefur þannig ákveðinn töframátt og það að gefa sér ákveðinn tíma til iðkunar eykur líkur á ávinningi.

Þrennt sem þér finnst fyndið: Það eru sterk tengsl á milli húmors og lífsánægju, húmor kallar fram gleði og gleði er mikilvægur þáttur í vellíðan. Gleði er ákveðin vörn gegn því að neikvæðar tilfinningar og upplifanir nái bólfestu en með því er ekki sagt að þær eigi ekki rétt á sér. Gleðin mildar og virkjar hamingjuhormónin. Gerðu þér far um að taka sérstaklega eftir því sem þér finnst fyndið, leitaðu uppi slíkt efni á Facebook. Svo eru kisu- og hrakfallamyndbönd á Youtube hlátursuppspretta fyrir sum okkar.

Þrennt sem gleður: Í lok hvers dags rifjar þú upp þrjá góða hluti sem gerðust þann daginn.

Þriggja mínútna dans: Dans hefur jákvæð áhrif á andrúmsloftið og eykur innri frið. Þegar við hreyfum okkur og dönsum losnar hormónið endorfín í líkamanum sem veldur vellíðan.

Þriggja línu ljóð: Hækur (haiku) er japanskur bragarháttur. Hæka hefur þrjár braglínur með fimm atkvæðum í fyrstu línu, sjö í næstu og fimm í þeirri þriðju. Efnið tengist náttúrunni og inniheldur eitt orð sem tengist árstíðinni sem er þegar hækan er ort. Hækur eru ortar í nútíð og innihalda ekki rím. Efni hækunnar eru yfirleitt tvær einfaldar skynmyndir eða upplifanir á náttúrunni. Dæmi:

Logn og veröldin
hvolfir sér í hafflötinn.
Hauststillugaldur.

Þriggja þrepa andrými: Þriggja mínútna andrými er ein leið í þjálfun á því að iðka núvitund. Hana er gott að nota þegar annir eða eirðarleysi gera það að verkum að það er erfitt að hugleiða í margar mínútur. Dæmi um slíka æfingu er að finna á www.proency.com/is/nuvitund sem Ljósberar hafa aðgang að.

Þrennt þakkarvert: Skrifaðu daglega niður þrennt sem er þakkarvert. Þakklætishugsanir geta aukið vellíðan, stuðlað að því að við dveljum við og njótum hins jákvæða og auðveldað okkur að takast á við mótlæti. Það að taka frá tíma til að þakka fyrir það sem maður er ánægður með og þakklátur fyrir eykur almenna ánægju með lífið.

Þrjú símtöl: Það að hringja í vini og ættingja veitir okkur góða tilfinningu, rýfur einangrun um leið og við látum gott af okkur leiða. Veljum leið í samræmi við það sem hentar hverju sinni. Myndspjall gefur annars konar tengingu, ef sú leið hentar þér og þeim sem þú vilt heyra í það skiptið. Nú gæti verið tækifæri til að æfa sig í að nota nýja tækni í samskiptum.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.