Fyrir börnin – Páskaratleikur

eftir Elínborgu Hákonardóttur umsjónamann handverks

Elinborg Hákonardóttir

Þar sem páskarnir eru á næsta leyti og flestir foreldrar leita nú logandi ljósi að afþreyingu fyrir börnin þá datt mér í hug að deila með ykkur því sem við fjölskyldan höfum gert. Fyrstu páskana með þeim harðsauð ég egg og litaði skurnina með matarlit og ediki. Eggin voru svo falin vítt og breitt í kringum húsið. Þegar búið var að finna þau öll fengu krakkarnir súkkulaðieggin að launum.
Þetta angraði mig alltaf aðeins þar sem eggin voru algerlega ónothæf eftir þetta og stóð alltaf til að finna betri lausn.
En svo komu enn einir páskarnir, eggjamálið var enn óleyst og engin egg voru til á heimilinu til að lita. Ég hóf þá leit að einhvers konar ratleik sem einhver hefði mögulega útbúið og deilt og að lokum rakst ég á þessa síðu hér.

Ég notaðist við flestar vísurnar sem voru í boði á þessari síðu í upphafi en hef einnig bætt aðeins við þær. Annað barnið var enn ólæst og útbjó ég því einnig prentvæna myndaútgáfu. Það þarf aðeins að taka viljann fyrir verkið hér og vera þakklát fyrir að börnin eru enn ekki orðin mjög gagnrýnin á kveðskap móðurinnar.

Við höfum framkvæmt leikinn þannig að eftir morgunmat þá rétti ég hverju þeirra fyrsta miðann og þau þurfa svo að finna út úr því hvar næsta vísbending finnst. Ég notast yfirleitt við sirka sjö vísur á barn og endurnýti vísurnar frá árinu á undan fyrir næsta barn.
Þar sem börn virðast ekki alltaf sjá það sem er beint fyrir framan nefið á þeim er gott að hafa í huga að fela miðana ekki of vel. Sérstaklega kannski fyrir þau yngstu.

Smellið hér fyrir vísurnar
Smellið hér fyrir myndaratleikinn

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.