Heimaleikfimi er heilsubót

eftir Áslaugu Aðalsteinsdóttur, sjúkraþjálfara í Ljósinu

Áslaug Aðalsteinsdóttir, sjúkraþjálfari í Ljósinu

Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið innilokuð vegna veirufaraldurs áður þá hef ég sótt mikið í að henda í eina og eina æfingu, samhliða heimilistörfum og öðru stússi á heimavelli. Aðrir fjölskyldumeðlimir hafa ýmist hlegið, hrist höfuðið í hneykslan eða pirrast yfir þessu háttalagi. Í mínum huga er þetta bara sérlega góð nýting á tíma í annríki hversdagsins. Þegar frítími er aflögu er útiveran í algjörum forgangi hjá mér og hafa styrktarþjálfun, jafnvægisþjálfun og teygjur því stundum orðið út undan.

Nýttu biðina

Eldhúsið er aðal ræktarsalurinn á mínu heimili. Þar þarf svo oft að bíða!

Pastað er að sjóða, hakkið að steikjast, fiskurinn í ofninum, hræra þarf í öðru hvoru … Svona mætti lengi telja. Þá er alveg tilvalið að standa á öðrum fæti, gera framstig, afturstig og hnébeygjur, armbeygjur á gólfi eða upp við eldhúsbekkinn. Þríhöfðaæfing við eldhúsbekkinn er líka alveg tilvalin og svo mætti áfram telja. Ég hef nefnilega átt það til að gleyma mér alveg ef athyglinni er beint út fyrir veggi eldhússins, því hefur fylgt brunalykt, ónýtur matur og í versta tilfellinu, ónýtur pottur.

Ekki meiri stirðleiki!

Áslaug tekur á því í eldhúsinu – Ekki gera heima nema undir eftirliti!

Eftir að máltíð er lokið er tilvalið að leggjast í smá sjónvarpsgláp, verði góður göngutúr eða önnur útivera ekki fyrir valinu. Glápið má brjóta upp með því að grípa í kviðæfingar í sófanum, bakæfingar (í auglýsingahléum!) og að gefa sér tíma í góðar vöðvateygjur. Ef dýna er til á heimilinu er hægt að liggja á henni fyrir framan sjónvarpið. Þetta er mjög góð leið til að koma í veg fyrir stirðleika að loknu glápi.

Áður en lagst er til hvílu er enn ein æfingastöðin í boði. Meðan tennur eru burstaðar er ekkert eðlilegra en að gera hnébeygjur, vippa ganglim upp á borð og teygja aftan eða innan á læri, nú eða gera jafnvægisæfingar með því að standa á öðrum fæti, jafnvel með lokuð augu.

Að kvöldi dags

Fátt er betra en að leggjast í rúmið sitt að loknum annasömum degi.

Til að ná góðri slökun er gott að leggja hendur á kvið og gera slakandi öndunaræfingar. Ef erfiðlega gengur að slaka á má líka alltaf leita uppi slökun á netinu og hlusta. En mikilvægast af öllu; hugsa jákvæðar hugsanir og biðja um góðan og endurnærandi nætursvefn.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.