Breytingar og breytingaferli

eftir Guðbjörgu Dóru Tryggvadóttur, iðjuþjálfa

Daglegt líf komið á hvolf! Hvað gera bændur þá?

Mörg ykkar sem þetta lesið hafa greinst með sjúkdóm, verið í atvinnu en þurft með stuttum fyrirvara að fara í veikindaleyfi um óákveðinn tíma. Í ofanálag er veirufaraldur og daglega fáum við nýjar upplýsingar um stöðuna í landinu og um allan heim. Miklar breytingar – mikil óvissa.

Stundum er því lýst að í kjölfarið á alvarlegum atburði hafi allt breyst á einu augnabliki, ekkert var lengur eins og venjulega. Þetta er raunveruleg upplifun margra, höggið kom og allt var breytt. Breytingum er hægt að skipta í þrennt:

1. Hægfara breytingar – Það eru stigvaxandi breytingar sem við tökum ekki eftir dags daglega. Barn vex og dafnar smám saman, við öðlumst meiri leikni í leik og starfi eftir því sem við fáumst við það í lengri tíma.

2. Ummyndunarbreytingar – Hér undir tilheyra atburðir sem hafa mjög mikil áhrif á okkar aðstæður og daglegt líf en breytingarnar eru tilkomnar vegna þess að við höfum valið að takast á við þær, s.s. að fara í nám, skipta um vinnu, hætta að vinna, ganga inn í samband, fara í langt ferðalag.

3. Umrótarbreytingar – Slíkar breytingar hafa einnig mjög mikil áhrif á okkar aðstæður og daglegt líf en eru tilkomnar vegna utanaðkomandi áhrifa sem við höfum ekki möguleika á að breyta eða afþakka. Hér undir fellur t.d. að greinast með alvarlegan sjúkdóm, atvinnumissir, ástvinamissir og eins og nú, tilkoma veirufaraldurs sem geisar í heiminum.

Við erum öll að upplifa umrótarbreytingar og ætlum að hjálpast að við að takast á við þær.

Breytingaferlið

Breytingar hrinda af stað ákveðnu ferli, nokkurs konar hringrás. Gagnlegt er að greina á milli þess sem ég get haft áhrif á og hvað er ekki í mínum höndum. Við ráðum ekki ein ferli þeirra umrótabreytinga sem hafa áhrif á líf okkar núna. Við erum hvött til að gera smærri breytingar á lífi okkar, eins og að auka handþvott og snerta síður hluti á opinberum stöðum, en við þurfum líka að takast á við stærri breytingar sem hafa áhrif á allt samfélagið, eins og samkomubann.

Við erum ekki þau einu sem þurfa að lúta samkomubanni og kröfum um fjarlægð milli einstaklinga en við getum ráðið hver viðbrögð okkar við þeim eru. Horfum við aðeins á það neikvæða sem ástandinu fylgir eða hringjum við í fólk sem við viljum heyra í?

Prufum við okkur áfram með nýja tækni til að eiga í samskiptum, eins og myndsímtöl og alls konar spjallforrit?

Fögnum við því að núna er tækifæri til að hægja á lífinu og endurmeta það sem skiptir okkur máli?

Ég get haft áhrif og ég hef val.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.