Rithöfundar lesa úr bókum á aðventukvöldi Ljóssins

Í Ljósinu erum við sammála um að það að lestur bóka sé mikilvægur hluti jólanna. Því munum við fá tvo frábæra rithöfunda til þess að lesa fyrir okkur úr bókum sínum á aðventukvöldi Ljóssins, þann 27. nóvember næstkomandi.

Annars vegar mun Gunnar Helgason koma sér fyrir niðri og lesa upp úr bók sinni, Draumaþjófinum, sem kemur út núna fyrir jólin Gunnar Helgason hefur á undanförnum árum sent frá sér fjölda gríðarvinsælla barnabóka, meðal annars Fótboltasöguna miklu í fimm bókum og fjórleikinn um Stellu og fjölskyldu hennar. Fyrir Mömmu klikk hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókaverðlaun barnanna hafa sex sinnum fallið honum í skaut. Hér skapar Gunnar spánnýjan og spennandi söguheim sem auðvelt er að týna sér í.

Í Hafnarlandi er allt eins og það á að vera og rotturnar þekkja sinn sess í lífinu : Safnara safna mat, Njósnarar njósna, Bardagarottur halda óvinum frá og Étarar éta og hafa það gott. Efst í virðingarstiganum er Skögultönn Foringi sem öllu ræður. En daginn sem dóttir hennar, Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís, gerir uppreisn tekur sagan óvænta stefnu og fer með söguhetjuna okkar inn í Borgina þar sem hættur eru á hverju strái og framandi rottur leika lausum hala. Sjálfur DRAUMAÞJÓFURINN er sendur til að bjarga henni – eða til að deyja.

Í salnum uppi mun Óskar Guðmundsson fá hár ykkar til að rísa þegar hann les upp úr nýrri spennubók sinni, Boðorðunum. Óskar er einn af okkar helstu spennusagna höfundur og hafa bækur hans Blóðengill og Hilma slegið rækilega í gegn.

Á köldum vetrarmorgni árið 1995 hitti Anton, 19 ára piltur, prest fyrir utan Glerárkirkju á Akureyri. Eftir það sást hann aldrei aftur. Tveimur áratugum síðar finnst prestur myrtur í kirkjunni á Grenivík.

Þegar lögreglan fer að rannsaka málið kemst hún að því að djákna hefur einnig verið ráðinn bani inni á Akureyri. Morðinginn skilur eftir sig torræð skilaboð en þó má lesa út úr þeim að hann sé í hefndarhug og fleiri mannslíf kunni að vera í hættu.

Lögreglukonan Salka snýr aftur til starfa eftir leyfi af persónulegum ástæðum og tekst á við þetta viðkvæma mál. Enginn virðist allur þar sem hann er séður, hvort sem í hlut eiga lögreglumenn eða kirkjunnar þjónar, og sjálf þarf hún að glíma við gamla drauga.

Við hlökkum til að sjá ykkur á aðventukvöldi Ljóssins.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.