Maðurinn á bakvið Ljósafossinn: Fjallasteini deilir með okkur nokkrum molum

steiniljosafoss2011_litil.jpeg

Árið 2011 var það ekki bara Esjan hjá Fjallasteina heldur einnig 399 aðrir tindar!

Í ár ætlum við að lýsa upp Esjuna í 10. skiptið og vekja þannig athygli á mikilvægi endurhæfingar fyrir fólk sem greinist með krabbamein. Okkur finnst ótrúlegt að horfa til baka og vera minnt á hvað fólk getur áorkað miklu ef viljinn er fyrir hendi en það birtist ekki bara í endurhæfingunni okkar heldur einnig í viðburði eins og þessum.

Ljósafossinn okkar niður hlíðar Esjunnar eru nefnilega hugarfóstur eins manns líkt og Ljósið okkar byrjaði hjá einni konu.

Ári áður en fyrsti Ljósafossinn niður Esjuhlíðar var genginn stóð Þorsteinn Jakobsson á fjalli og fékk hugmynd um árlega fjallgöngu þar sem myrkrið væri lýst upp fyrir gott málefni.

Þegar góð vinkona hans, Björk Andersen kynnti hann fyrir endurhæfingunni sem hún væri að hljóta í Ljósinu hafði Þorsteinn, eða Fjallasteini eins og við þekkjum hann best, samband við Ernu Magnúsdóttur forstöðukonu Ljóssins og viðraði við hana hugmyndir um göngur sem vitundarvakningu. Erna var ekki lengi að stökkva á þessa hugmynd og úr urðu skemmtileg Esjuverkefni sem í ár er gengið í 10. sinn!

Gangan er nú orðin ómissandi viðburður fyrir fjölmarga en árlega koma hundruð manns með okkur í hlíðarnar til að láta Ljósið skína.

Að þessu tilefni fengum við Fjallasteina okkar til þess að svara nokkrum spurningum um sig sjálfan.

Hvenær byrjaðir þú að ganga á fjöll?
Ég var bara lítill strákur í sveit á sumrin þegar ég fékk áhuga á fjöllum og allir hólar voru fjöll í mínum augum.

Getur þú lýst tilfinningunni sem þú finnur á fjöllum?
Tilfinning að ganga á fjöll nærir sál og líkama þetta finna þeir sem ganga mikið úti í náttúrunni.

Hvaða áhrif hefur það á mann að skipuleggja svona verkefni á hverju ári?
Að skipuleggja göngu á hverju ári fyrir frábært málefni eins og Ljósið gefur mér gleði í hjarta. Ég þekkti ekkert Ljósið þegar ég hafði í huga að lýsa upp hlíðar Esju fyrir gott málefni. Það var Björk heitin Andersen sem kynnti mér fyrir Ljósinu og þá var ekki aftur snúið. Ég varð fljótt heillaður af starfinu sem þar var unnið í þágu krabbameinssjúklinga og aðstandendur enda Erna frábær manneskja.

Börn og barnabörn hans Fjallasteina koma með honum á hverju ári

Afhverju ætti fólk að taka þátt í Ljósafossinum niður Esjuhlíðar?
Þeir sem hafa tök á því að taka þátt í göngunni eru að sýna Ljósinu mikla virðingu og næra sig í leiðinni.

Áttu uppáhalds tónlistarmann?
Haukur Morthens heitinn hafði mjög mikinn áhrif á minn tónlistasmekk. En það eru margir í uppáhaldi hjá mér. Bubbi klikkar aldrei Valgeir Skagfjörð er magnaður á píanóið.

Hvað er uppáhalds maturinn þinn?
Besti maturinn er fiskur.

Horfir þú einhver tíma á sjónvarp?
Ég horfi lítið á sjónvarpið og í kringum hrunið kveikið ég ekki á því í 4 ár!

Frá okkur öllum í Ljósinu segjum við takk kæri Fjallasteini fyrir óeigingjarnt starf í þágu Ljóssins og fyrir að hafa óbilandi orku á hverju ári. Án þín væri þessi skemmtilega vitundarvakning ekki til staðar.

Fjallasteini með Ernu forstöðukonu Ljóssins og Sólveigu Kolbrúnu markaðs- og kynningarstjóra Ljóssins í upphafi göngunnar 2018

Gítarinn er ALLTAf með enda nauðsynlegt að hita vel upp áður en haldið er í fjallið.

Steini á toppnum árið 2010

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.