Mikilvæg skilaboð varðandi líkamlega endurhæfingu í Ljósinu

Ný stundatafla Ljóssins hefur nú verið gefin út. Við biðjum ykkur að athuga breytingar á ýmsum tímum, skoða nýjungar og gefa nýju innritunarferli í líkamlega endurhæfingu Ljóssins gaum.

Breytt innritunarferli í líkamlega endurhæfingu í Ljósinu:

Óski fólk eftir að nýta sér hreyfingaúrræði þarf það að skrá sig í hópa hjá þjálfurum. Það er gert til að þjálfarateymið geti betur haldið utan um endurhæfingu hvers og eins og veitt þannig betri eftirfylgni.

  • Fólk sem er nýtt í þjónustu og hefur ekki enn hitt sjúkraþjálfara mun fá boð á innritunar- og fræðslufund á næstu vikum.
  • Þeir sem eru nýlega byrjaðir í þjónustu og hafa hitt sjúkraþjálfara geta skráð sig í þá tíma sem þeim hugnast í samráði við þjálfara með því að senda póst á thjalfarar@ljosid.is.
  • Fólk sem hefur verið að mæta reglulega í vor og sumar er sjálfkrafa skráð í þá hópa sem við á.

Fjarvistir: Framvegis viljum við biðja fólk sem ætlar sér að nýta hóptímana að láta vita þegar um fjarvist er að ræða. Það er gert til að við getum haldið betur utan um mætingu hvers og eins. Senda skal tölvupóst á thjalfarar@ljosid.is.

Nýjungar og breyttar tímarsetningar í stundatöflu

Við erum búin að fjölga æfingatímum í Ljósinu og í Hreyfingu. Það er gert til að koma betur til móts við aukinn fjölda fólks sem er að nýta sér líkamlega endurhæfingu í Ljósinu. Athugið vel breytta tímasetningu á flestum tímum. Einnig að búið er að breyta fyrirkomulagi á uppsetningu kvennahópanna og er þeim skipt í:

  • Konur 46 til 59 ára
  • Konur 60 ára og eldri

Nýjung fyrir konur sem gengist hafa undir uppskurð vegna brjóstakrabbameina
Nýjung er að við bjóðum upp á sérhæfða tíma fyrir konur sem hafa gengist undir uppskurð vegna brjóstakrabbameina. Æskilegast er að byrja 2-4 vikum eftir skurð í samráði við þjálfara. Tímarnir eru einnig ætlaðir konum sem eru að kljást við sogæðabjúg.

Jafnvægistímar
Jafnvægistímarnir eru nú tvisvar sinnum í viku og eru þeir ætlaðir fólki með skerðingu á jafnvægi vegna krabbameinsmeðferðar.

Breyttur tími á gönguhóp
Gangan hefur verið færð fram um hálftíma á þriðjudögum og fimmtudögum, áfram eru gengnar tvær vegalengdir sem taka um 30 og 50 mínútur hvor um sig.

Tímar í Hreyfingu
Þol og styrkur í Hreyfingu heldur sínum tíma mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 10:00.
Tímar fyrir konur og karla á aldrinum 20 – 45 ára í Hreyfingu hafa verið sameinaðir og bætt við auka tíma, þeir verða mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 11:00.

Sérstakar mælingar og ráðleggingar þjálfara
Í sérstökum tilvikum bjóðum við áfram upp á mælingu og eftirfylgd hjá þjálfarateyminu fyrir fólk sem er að leggja stund á markvissa þjálfun annarsstaðar sem og að veita ráðleggingu um þjálfun.

Kær kveðja,
Þjálfarateymið

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.