Mikil gleði á árlegri pastaveislu Ljóssins

Það var glatt á hjalla hjá okkur í gær þegar árlega pastaveislan okkar fór fram á Langholtsveginum en þar buðum við uppá pastasalat og fræðandi fyrirlestur fyrir þá sem ætla að hlaupa fyrir Ljósið í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka.

Gunnar Ármannsson ræddi við okkur um hlaup og krabbamein en sjálfur greindist hann með ólæknandi blóðkrabbamein 38 ára gamall. Auk þess að segja okkur frá hvernig hlaup urðu hluti af lífi hans eftir greiningu fékk hann fólk til að skemmta sér konunglega yfir sögum að skemmtilegum maraþonhlaupum sem nú telja yfir 40 talsins. Í dag erum við mjög fegin að það séu engin ljón í Reykjavíkurmaraþoni!

Við afhentum einnig hlaupagörpum íþróttaboli merkta Ljósinu en minnum alla sem hlaupa fyrir Ljósið í Reykjavíkurmaraþoni á að við verðum á skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons, Fit & Run, og hægt er að sækja boli þangað.

Við þökkum öllum þeim sem lögðu leið sína til okkar fyrir komuna.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.