Orðsending til Ljósavina

Kæru vinir, ljósberar, aðstandendur og annað velgjörðarfólk Ljóssins,

Apríl hefur allar götur frá árinu 2006 verið mánuður Ljósavina hjá okkur í Ljósinu. Með hjálp Ljósavina hafa markmið Ljóssins um að bæta lífsgæði fólks sem hefur fengið krabbamein og aðstandenda þeirra orðið að veruleika. Mörg ykkar sem fáið þennan póst eruð nú þegar Ljósavinir, það er ómetanlegt og við erum innilega þakklát fyrir stuðninginn.

Ef þú ert ekki Ljósavinur í dag þá getur þú með einföldum smelli bæst í hópinn hér.

Á síðasta ári voru komur til okkar á Langholtsveginn 20.000 talsins og núna í febrúar 2019 sinntum við 480 einstaklingum. Allir sem koma í þjónustu okkar fá sérsniðnar endurhæfingaráætlanir svo að árangurinn verði sem mestur, en það er einmitt kjarninn í heildrænni faglegri endurhæfingu.

Vegna mikillar aðsóknar í þjónustu Ljóssins er fyrirhugað að kaupa húsnæði á lóð númer 47 við Langholtsveg svo að starfið geti blómstrað enn frekar.Árgjald Ljóssins hefur frá upphafi verið ein greiðsla á ári að upphæð 3.500,- krónur en í ár verður greiðslan hækkuð um 1.000 krónur. Mun því greiðsluseðill upp á 4.500 krónur birtast í heimabanka á næstu dögum hjá þeim sem eru skráðir Ljósavinir.

Við vonum innilega að þessi breyting mælist vel fyrir.Ljósavinir geta valið að greiða einu sinni á ári, en fyrir þá sem hafa tök á bjóðum við einnig upp að greiða mánaðarlega upphæð að eigin vali og hjálpa okkur að láta starfsemi Ljóssins lifa og dafna áfram.

Við sendum ykkur öllum okkar hlýjustu Ljósavinakveðjur,

Erna Magnúsdóttir – Forstöðumaður Ljóssins

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.