Kerti til styrktar Ljósinu

Ungir frumkvöðlar úr Verslunarskóla Íslands hanna, framleiða og selja kerti til styrktar Ljósinu. Kertin verða til sölu á Vörumessu í Smáralind föstudaginn 5. apríl.

Undanfarna mánuði hafa ungmenni í framhaldsskólum landsins setið áfanga í frumkvöðlafræðum. Í Verslunarskóla Íslands tóku 6 ungmenni sig saman og stofnuðu fyrirtækið Glyttu, sem selur náttúruvæn ilmkerti til styrktar Ljósinu. Hópurinn, sem samanstendur af Hönnu Björt, Kjalari, Söru Sunnevu, Teklu Þórdísi, Telmu Sif og Þórunni Evu, hefur lagt allan grunn að verkefninu. Þau hönnuðu kertin frá grunni og framleiða þau alveg sjálf.

Nokkur ungmenni úr hópnum hafa átt aðstandendur sem hafa nýtt sér þjónustu Ljóssins og því tóku þau ákvörðun um að safna styrkjum í framleiðsluferlið, gefa vinnu sína og láta þar með hverja einustu krónu renna til endurhæfingarstarfs Ljóssins.

Glytta kíkti í heimsókn í Ljósið til að kynna sér starfssemina

Við erum virkilega stolt og þakklát fyrir að þau hafi valið að styrkja Ljósið og hvetjum alla til þess að leggja leið sína í Smáralind á föstudaginn 5. apríl.

Það má finna frekari upplýsingar, myndir og myndbrot úr framleiðsluferlinu á Instagram-síðu Glyttu.

Ljósavinur – mánaðarlegur styrkur

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.