Viðtal við ljósbera: „Myndavélin er oftar en ekki með í för“

Vestrahorn eftir Ólaf Óskar
Vestrahorn með auga Ólafs Óskars

Það eru margir hæfileikaríkir einstaklingar sem sækja þjónustu til okkar í Ljósið. Ólafur Óskar Jónsson er einn þeirra en í áraraðir hefur ljósmyndun verið eitt helsta áhugamál hans. Í vikunni tók hann sér pásu frá fluguhnýtingum, sem voru í gangi í handverkssal Ljóssins, og spjallaði við okkur um verkin sín, lífið og ljósmyndaáhugann.

„Ég hef alltaf haft áhuga á ljósmyndun en það má segja að hann hafi aukist eftir að ég hætti að vinna og eignaðist betri vélar. Myndavélin er oftar en ekki með í för en ég fer líka út gagngert með myndavélina til þess að smella af.“ segir Ólafur okkur frá með bros á vör.

Ólafur er fæddur og uppalinn á Ísafirði og sótti sjóinn áður en hann fluttist suður og vann í Straumsvík í 36 ár. Það er því kannski ekki skrýtið að sjá myndir frá Vestfjörðum bregða fyrir í safni hans og heldur ekki óvanalegt að Ólafur nefni Reykjanesið sem fallegan stað til ljósmyndunar. „Ég hef auðvitað gaman að því að taka myndir af fólkinu mínu en ég er virkilega hrifinn af því að taka myndir af náttúrunni. Reykjanesið er heillandi.“

Í myndasafni Ólafs Óskars má sjá mörg sjónarhorn á líf og náttúru Ólafs

Ólafur er duglegur að ferðast um landið og nýtur sín í sumarbústaðnum í Fljótshlíð en þegar það kemur að ljósmynduninni þá dugir ekkert minna en heilir tveir áhugaljósmyndaraklúbbar, Vitinn á Akranesi og Út í bláinn sem er félagsskapur eldriborgara í Kópavogi: „Það er virkilega skemmtilegt að vera í slíkum félagsskap. Við hittumst reglulega og nú eru í gangi tvenn ólík þemu: Gult þema hjá Vitanum og svo erum við að stúdera málma og ryð í Kópavogi. Mér finnst gaman að deila myndunum mínum. Finnst það skipta máli.“

Ólafur hefur verið duglegur að nýta sér þjónustuna í Ljósinu: „Ég skelli mér í jóga, göngur og auðvitað fluguhnýtingarnar. Ég er mjög þakklátur fyrir allan stuðninginn og styrkinn sem ég hef fengið hér í Ljósinu“

Við þökkum Ólafi kærlega fyrir spjallið og setjum í lokið skemmtilega myndasyrpu af maríuerlum sem Ólafur tók fyrir nokkrum árum.

Skemmtilega syrpa af maríuerlum að leik í sveitinni.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.