Heimsókn á Kaffibrugghúsið

Á síðasta degi febrúarmánaðar heimsótti jafningjahópur krabbameinsgreindra á aldrinum 20-45 ára í Ljósinu Kaffibrugghúsið á Granda heim. Þó svo að ekki sé búið að opna fyrir gestum og gangandi bauð Sonja Björk Grant, sem er einn af okkar þekkingarmestu kaffibarþjónum og eigandi fyrirtækisins okkur í ævintýralega fræðslu um kaffiræktun, tínslu, brennslu og uppáhellingu kaffis. Hluti af upplifuninni var að smakka þrjár mismunandi tegundir af kaffi sem reyndist spennandi áskorun fyrir marga. Þórdís Reynisdóttir var með í för og smellti af nokkrum skemmtilegum myndum af augnablikinum.

Það var glatt á hjalla á Kaffibrugghúsinu
Það er vandaverk að smakka kaffi

Kaffibrugghúsið mun opna dyr sínar á vordögum en þar verður að finna kaffibrennslu, kaffihús og aðstöðu fyrir námskeið, löggildingar og margskonar þjálfanir fyrir fagfólk sem og áhugamenn og -konur um kaffi.

Sonja fræðir hópinn um hinar flóknu aðferðir kaffiræktunar
Kaffismakkið tilbúið

Markmið jafningjahópsins í Ljósinu er að brjóta upp hversdaginn reglulega með skemmtilegum heimsóknum og samveru. Á sama tíma eru meðlimir að auka úthald og þol í félagslegum aðstæðum sem og að deila reynslu sinni og miðla góðum ráðum, og kynnast skemmtilegu fólki.

Hluti hópsins að smakki loknu

Við sendum okkar bestu þakkir til Sonju og félaga hjá Kaffibrugghúsinu og hlökkum til að kíkja við í rjúkandi heitan bolla í vor.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.