Ljósið á Læknadögum 2019

Haukur og Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins


„Mat á endurhæfingarþörf einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein.“ var yfirskrift erindis sem G. Haukur Guðmundsson, sjúkraþjálfari í Ljósinu flutti á árlegum Læknadögum nú í lok janúar.

Haukur, sem er einn af okkar helstu sérfræðingum í endurhæfingu krabbameinsgreindra með mastersgráðu í íþrótta-og heilsufræðum auk viðbótarmenntun í hreyfingu krabbameinsgreindra frá University of Northern Colorado Cancer Rehabilitation Institute, leiðir teymi sjúkraþjálfara og íþróttafræðinga í Ljósinu.

Í Hörpu fjallaði Haukur um mikilvægi þverfaglegrar nálgunar í endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein. „Fólk er oft að takast á við alveg nýjar hugsanir og verkefni þegar það greinist með lífsógnandi sjúkdóm. Það getur verið erfitt að þekkja hvað sé hægt að fá hjálp við og hvað maður eigi að ráða við sjálfur, sem og hvaða mörk maður þarf að setja sjálfum sér þegar líkaminn er einnig allt í einu hálf ókunnugur manni“ segir Haukur.

Í erindinu lagði Haukur áherslu á iðjuþjálfa Ljóssins sem kjarnann í endurhæfingunni en það kemur í þeirra hlut að skima fyrir margvíslegum endurhæfingaþörfum og skapa rými til að ræða um málefni sem mögulega er ekki tækifæri til að ræða við á öðrum stöðum. Sé vandamálið utan þeirra verksviðs og þörf fyrir áframhaldandi aðstoð, t.d. sálfræðinga, nuddara, sambandsráðgjafa eða kynlífsráðgjafa þá sjái þeir að benda fólki í rétta átt.

„Það er svo í höndum sjúkraþjálfarar Ljóssins að meta líkamlegt atgervi og ráðleggja hverjum og einum um þjálfun og hreyfingu við hæfi til að sporna sem mest við að þrek, orka og hreysti skerðist í meðferð og hámarka þann bata eða endurheimt sem hægt er að ná eftir meðferðarlok.“

Í umfjöllun sinni fjallaði Haukur einnig um mikilvægi þess að þeir sem starfa við faglega endurhæfingu krabbameinsgreindra séu vakandi fyrir nýjungum á sínu sérsviði. Áherslur á tímasetningu endurhæfingar séu til dæmis að breytast og nú séu læknar stöðugt að leggja meiri áherslu á að sjúklingar sinni endurhæfingu eins fljótt og auðið er eftir greiningu krabbameins til að koma í veg fyrir eða lágmarka áhrif af lyfjameðferðum og aðgerðum (e. prehabilitation).

Læknadagar eru árlegur viðburður sem haldinn hefur verið í rúm 100 ár. Í ár, eins og áður, var dagskráin metnaðarfull og þátttaka góð en árlega lítur um helmingur allra lækna á Íslandi við á Læknadögum.

Við í Ljósinu erum virkilega stolt af því að hafa átt fulltrúa á þessum mikilvæga viðburði.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.