Forstöðukona Ljóssins hlýtur hina íslensku fálkaorðu

Á sunnudaginn var, þann 17. júní hlaut forstöðukona Ljóssins Erna Magnúsdóttir riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu krabbameinssjúkra.

Ljósið er hugarfóstur Ernu og er hún því bæði hugmyndasmiður og stofnandi Ljóssins.  Frá því að þessi litla ljóstýra fór að skína í starfsemi sem hófst í Neskirkju árið 2005 má segja að Ljósið hafi verið hennar fjórða barn, enda hefur hún borið hag þess fyrir brjósti æ síðan. Undir hennar handleiðslu hefur þessi litla ljóstýra stækkað og dafnað ört og þétt og er í dag orðin að þeim vita sem lýst hefur og lýsir leið margra sem greinast með krabbamein.

Þeir sem nýta sér þá þjónustu sem Ljósið býður uppá hafa mjög gjarnan á orði ,,Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef Ljósið hefið ekki verið“  Það er því löngu sannað að Ljósið er komið til að vera.

Við óskum Ernu innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu á hennar störfum.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.