Glæsilegur Ljósafoss

Hann var æði tignarlegur og fagur, Ljósafossinn sem liðaðist niður Esjuhlíðar síðastliðin laugardag. Hátt á annað hundrað manns mættu úr hinum ýmsu gönguhópum ásamt okkar fólki úr Ljósinu. Allir voru vel búnir og með höfuðljós til að taka þátt í mótun fossins. Mikil gleðir ríkti í hópnum og afar vel tókst að vekja athygli á þeirri starfsemi sem fram fer í Ljósinu, sem einmitt er markmiðið með Ljósafossgöngunni. Símaviðtal var við forstöðukonu Ljóssins, Ernu Magnúsdóttur Í bítið á Bylgjunni fimmtudeginum fyrir göngu. Jafnframt mætti RÚV á staðinn sjálfan göngudaginn og tók myndir af fossinum og viðtal í beinni útsendingu við Ernu og Þorstein Jakobsson, fjalla  Steina, skipuleggjanda göngunnar. Viðtalið má sjá á Sarpinum, laugardaginn 2. des.

Björgunarsveitin Kjölur var einnig á staðnum tilbúin til aðstoðar ef á þyrfti að halda og kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir. Þeir sem ekki treystu sér í gönguna nutu þess að vera inni í hlýjunni í Esjustofum þar sem hægt var að njóta góðra veitinga gegn frjálsum framlögum sem runnu óskipt til styrktar Ljósinu.

Dásamlegur dagur í alla staði og við þökkum öllum innilega fyrir komuna, þáttökuna og stuðninginn. Án ykkar hefði þessi dagur ekki orðið að veruleika.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.