Ráðgjafaþjónustan

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins er upplýsinga- og stuðningsþjónusta fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein og fyrir aðstandendur. Opið frá kl. 9-16 virka daga á fyrstu hæð í Skógarhlíð 8, Reykjavík. Markmið Markmið Ráðgjafarþjónustunnar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu eftir þær breyttu aðstæður sem greining krabbameins veldur. Í Ráðgjafarþjónustunni getur fólk hitt hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og fleiri fagaðila. Þar er einnig hægt að hitta fólk sem farið hefur í gegnum krabbameinsmeðferð og læknast. í Ráðgjafarþjónustunni er boðið upp á fræðslu, viðtöl, faglega ráðgjöf, sálgæslu, djúpslökun, ýmis námskeið og hagnýtar upplýsingar. Húsnæðið er heimilislegt og þar er hægt er að setjast niður og fá sér hressingu. Þar er einnig aðgengi að tölvu og prentara. Þjónustan er fólki að kostnaðarlausu. Gjaldlaus símaráðgjöf og símsvari: 8004040. Tilgangur Ráðgjafarþjónustunnar er að veita fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þeirra upplýsingar, fræðslu, ráðgjöf, stuðning og hvatningu. Markmið þjónustunnar er að aðstoða fólk við að takast á við breyttar aðstæður eftir greiningu krabbameins. Starfsemi Ráðgjafarþjónustunnar er margþætt. Þar starfa félagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingar og fulltrúar stuðningshópa krabbameinssjúklinga tengjast starfseminni. Hlutverk starfsfólks er að aðstoða alla þá sem til Ráðgjafarþjónustunnar leita. Lögð er áhersla á að veita hagnýtar upplýsingar eftir því sem kostur er á og veita aðstoð við að sækja um úrræði og réttindi sem fólk á rétt á. Upplýst er um endurhæfingu og fjárhagsleg og heilsueflandi úrræði. Í Ráðgjafarþjónustunni er boðið upp á þjónustu fyrir einstaklinga, fjölskyldur og hópa. Þar eru haldnir fræðslufyrirlestrar og námskeið og boðin þátttaka í hópastarfi. Einstaklingsmiðuð þjónusta felst í viðtölum við einstaklinga og fjölskyldur þeirra og einnig er boðið upp á djúpslökun. Tvisvar í mánuði eru haldnir fræðslufyrirlestrar í hádeginu. Þeir eru valdir með það að markmiði að auka þekkingu á krabbameini og hvernig best er að takast á við afleiðingar þess á sem uppbyggilegastan hátt. Meginþema fræðslunnar er heilsuefling og að dýpka skilning á aðstæðum krabbameinssjúklinga og fjölskyldna þeirra.  sjá nánar á krabb.is