Best að vera fremst eða aftast

Rakel, Sara Líf, Arnar Leó og Karítas Mía eru kraftmikil fjölskylda sem ber hlýjar taugar til Ljóssins. Rakel er dóttir Þorsteins Jakobssonar sem er forsprakki Esjugöngunnar og því eiga þau ekki langt að sækja ævintýraþránna og drifkraftinn. Í tilefni Ljósafossins okkar niður Esjuna kíktu þau við hjá okkur á Langholtsveginum og spjölluðu við okkur um afhverju þau taka þátt á hverju ári.

„Við erum búin að vera með pabba í þessu frá upphafi“ segir Rakel. „Það er eitthvað frábært við að taka þátt og styrkja gott málefni. Ég hef reynt að ganga alltaf með pabba en hef reyndar sleppt því eins og þegar ég var nýbúin að eiga Karítas. En þetta er einstök upplifun og við förum öll. Það er nefnilega þannig að þetta þarf ekki að vera erfið ganga. Maður gengur bara eins langt og maður kemst. Fyrir suma hentar bara að ganga styttra en maður er samt að taka þátt. Einhverjir þurfa að vera neðst“.

Það er greinilegt að krakkarnir eru á sama máli „Það er nefnilega best að vera neðst“ bætir Sara Líf við „Eða efst ef maður kemst. Því þá sér maður ljósafossinn svo vel. Það er geggjað.“

En finnst krökkunum þetta ekkert erfitt og í hvaða fötum á maður að fara? „Nei, þetta er ekki erfitt“ svara þau saman með yfirvegun. „Og maður þarf að klæða sig vel. Maður á ekki mæta illa klæddur því það getur verið kalt og smá vindur“.

Það er greinilegt að þessi flotti hópur hans Steina hlakkar mikið til að ganga með okkur 1. desember. Og það er gott að vita að það verða flottir krakkar sem reka lestina upp… og leiða hópinn aftur niður.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.