Að loknu Reykjavíkurmaraþoni

Reykajvíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram síðustu helgi og vonandi hefur það ekki farið fram hjá neinum hversu mikinn meðbyr Ljósið fékk í ár. Fyrir það erum við endalaust þakklát og glöð og sendum kærleikskveðjur út í andrúmsloftið til allra þeirra sem komu að hlaupinu með einum eða öðrum hætti.

Frá því í vor hefur verið starfræktur hlaupa- og skokkhópur í Ljósinu og allir hafa verið velkomnir að vera með í honum til að undirbúa sig fyrir hlaupið.

Á fimmtudeginum fyrir hlaup var pastaveisla í Ljósinu þar sem margreindur maraþonhlaupari, Gunnar Páll Jóakimsson kom og var með fræðandi erindi um ýmis hagnýt atriði sem snúa að hlaupi. Þarna afhentum við líka Ljósaboli sem hlauparar voru hvattir til að vera í í hlaupinu sjálfu. Í pastaveisluna mættu um 50 manns.

Ljósafólk var einnig með bás í Laugardalshöllinni þar sem hlauparar gátu nálgast boli og vöktu þeir töluverða athygli enda bolirnir bjartir og fallegir. Okkur þótti vænt um að sjá svona marga og getað sagt ,,takk fyrir okkur“

Hlaupadagurinn sjálfur rann svo upp með dásamlega fallegu veðri og léttum andvara og þrömmuðu starfsmenn Ljóssins snemma af stað á klappstöðina sem var nú í 12 sinn við enda Hringbrautar rétt við JL húsið. Á klappstöðina mættu á milli 40-50 manns sem hvöttu hlaupara Ljóssins áfram með ráðum og dáðum og þeir voru ófáir hlaupararnir sem nefndu það að hvatningin sem þeir fundu hafi hjálpað þeim síðasta spölinn. Allt skiptir þetta máli.

Undanfarin ár hafa hlaupararnir okkar jafnframt fengið ,,fimmu“ á endastöðinni okkar fyrir hlaupið og svo var einnig nú.  Með fimmunni fylgdi orkubiti, svona aðeins til að jafna orkubúskapinn eftir hlaupið.

Frá því í júlí hefur verið starfræktur Facebookhópur fyrir hlaupagarpa Ljóssins og hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með þeim og sjá hópinn stækka og dafna.

Alls skráðu sig rúmlega 330 einstaklingar sem söfnuðu áheitum fyrir Ljósið skv. Hlaupastyrk.is. Með öðrum orðum, þá hljóp h.u.b 10 þúsundasti hver Íslendingur fyrir Ljósið. Hversu frábært er það? Þessir aðilar söfnuðu um 10 milljónum og munu þær svo sannarlega koma í góðar þarfir. Nú þegar hefur verið ákveðið að gjald fyrir hreyfingu hér í Ljósinu og námskeiðsgjald í handverki verður ekki sett á í vetur, annað árið í röð, þökk sé áheitasöfnuninni.  Við vitum að þetta hefur komið afskaplega mörgum Ljósberum vel í baráttu þeirra við krabbameinið, því nóg er nú samt.

Við þökkum ykkur öllum innilega fyrir einstakann stuðning og velvilja í garð Ljóssins og hlökkum til að sjá ykkur að ári.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.