Dagskrá Ljóssins í júní

Nú þegar sumarið á að vera komið eða júní er allavega komin samkvæmt dagatalinu þá verða gjarnan smávægilegar breytingar á stundaskránni okkar hér í Ljósinu. Til að sjá nýuppfærða dagskrá, smelltu hér.

En svo að við stiklum aðeins á stóru þá verður sú breyting á jóganu að einn tími verður á þriðjudögum og fimmtudögum í stað tveggja áður og verður hann kl. 9:30. Thelma Björk Jónsdóttir mun leiða jógatímana í sumar í fjarveru Regínu sem kemur svo aftur í haust. Í júlí munum við svo hægja örlítið meira á dagskránni og hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með uppfærslum á dagskrá.

Í handverkinu á fimmtudögum í júní ætlar Heiðdís Norðfjörð Gunnarsdóttir kjólameistari að koma og vera með námskeið í prjónagleði og m.a. kenna hvernig á að prjóna sokka aftur á bak, sem sagt byrja á tánni.

Leirinn verður á sínum stað í júní fyrir utan tímana á miðvikudögum sem eru komnir í sumarfrí.

Jafningjahópar hittast minna á sumrin en á veturna og ætla jafningjahópur Valkyrja (konur 46-55 ára) og Ljósynja (56 ára+) að halda sameiginlegt lokahóf á sjálfan kvennadaginn þann 19. júní. Kristín Ástgeirsdóttir fyrrverandi forstöðukona jafnréttisstofu og Kvennalistakona ætlar að koma og fræða hópinn aðeins um þá baráttu sem konur stóðu í m.a. til að öðlast kosningarétt.

Þann 27. júní verður síðan hin árlega Esjuganga Ljóssins og áætlað er að leggja af stað í fjallið um kl. 11. Segja má að þessi ganga sé nokkurskonar lokahóf útivistarhópsins sem tekist hefur á við ýmsar krefjandi gönguferðir í vetur. En meira um göngun síðar.

Skokkhópurinn verður á sínum stað alla þriðjudag kl. 15:30 og við mælum eindregið með að fólk nýti sér þann frábæra hóp og sér í lagi ef það ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu.

Annars hvetjum við ykkur til að vera dugleg að fylgast með hér á heimasíðunni okkar og Facebook síðum Ljóssins.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.