Málþing um endurhæfingu

Ljósið var einn af þeim aðilum sem stóðu að málþingi um endurhæfingu krabbameinsgreindra sem fram fór í hátíðarsal Háskóla Íslands fimmtudaginn 3. maí sl.  Þetta er í fyrsta sinn sem allir þeir sem standa að endurhæfingu krabbameinsgreindra koma saman og ræða málin opinskátt. Allir endurhæfingaraðilarnir eru sammála því að mikil þörf sé á að samræma og skilgreina allt ferlið þegar einstaklingur greinist og efla flæðistýringu og greina þarfir svo allir njóti sömu endurhæfingarúrræða. Eins þarf að auka fjárframlög til málaflokksins.

Þeir sem stóðu að málþinginu lögðu fram ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að leggja fram heildstæða endurhæfingaráætlun krabbameinsgreindra ásamt fjármagnaðri aðgerðaráætlun.

Í tilefni af málþinginu var lokað hér í Ljósinu en bæði starfsfólk og stór hópur þeirra sem nýta sér þjónustu Ljóssins mætti á málþingið.  Þátttaka okkar Ljósafólks var því áberandi í þinginu; forstöðukona Ljóssins, Erna Magnúsdóttir tók þátt í pallborðsumræðum og tveir notendur þjónustunnar lýstu sinni reynslu af því að greinast með krabbamein. Þau voru afar áhugaverð og lýsandi erindin hjá þeim Einari Magnússyni og Jónatan Jónatansyni ljósberum. Okkar bestu þakkir strákar fyrir ykkar framlag.

Í tengslum við málþingið birtist grein eftir Ernu Magnúsdóttur, forstöðukonu í Morgunblaðinu 3. maí sl. sem lesa má hér

Jafnframt sendi samstarfshópurinn frá sér tilkynningu um þingið sem lesa má hér.

Við í Ljósinu erum ánægð með þetta þing og hlökkum til að taka þátt í framhaldinu að stefnumótun um endurhæfingu krabbameinsgreindra á Íslandi.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.