Höfðingleg gjöf í tengslum við meistararitgerð

Nú nýverið barst Ljósinu höfðingleg gjöf frá Ingibjörgu Halldórsdóttur í tengslum við nýútkomna meistaraprófsritgerð hennar. Ingbjörg ákvað að í stað gjafa í útskriftarhófi sínu að óska frekar eftir peningaframlögum og láta þá fjárhæð sem safnaðis renna til Ljóssins. Þessir peningar koma í afskaplega góðar þarfir hér í Ljósinu og þökkum við Ingibjörgu og gestum hennar innilega fyrir hlýhug og stuðning en alls söfnuðust 140 þús. kr

Meistaraprófsritgerð Ingibjargar ber titilinn ,,Upplýsingahegðun krabbameinssjúklinga um mataræði, fæðubótarefni og lækningajurtir“  Um megindlega rannsókn var að ræða.

Rannsóknin var framkvæmd á Krabbameinsdeild Landspítalans, hjá Ljósinu og hjá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins. Nafnleynd var viðhöfð og sækja þurfti um leyfi Siðanefndar Landspítala. Spurt var um Upplýsingahegðun krabbameinssjúklinga um mataræði, fæðubótarefni og lækningajurtir. Svörun var 42% eða 107 manns. Þátttakendur voru á aldrinum 22 til 81 árs, 66% svarenda voru konur en 34% karlar. Greint er frá 17 upprunalíffærum krabbameins, en flestir eða 43 greindust með brjóstakrabbamein. Fjórtán þátttakendur höfðu endurgreinst.

Upplýsingahegðun þeirra sem greinast með krabbamein er brýn og áreiðanleiki upplýsinganna skiptir öllu máli. Niðurstöður gefa til kynna að þátttakendur áttu í erfiðleikum með að finna upplýsingar um mataræði sem þeir treysta m.a. vegna gífurlegs upplýsingaflæðis á netinu og að upplýsingar geta verið misvísandi, flóknar og erfitt að skilja þær. Rannsóknin leiddi í ljós að mannleg samskipti eru mikilvæg við upplýsingaleit.

Þeim sem greinast með krabbamein er bent á gildi lífsstílsbreytinga til að minnka áhættu á endurkomu sjúkdóms. Nánar til tekið að vera í kjörþyngd, stunda reglubundna hreyfingu, breyta áherslum í mataræði en borða fjölbreytt fæði samkvæmt ráðleggingum frá Embætti landlæknis. Í kjölfar krabbameinsgreiningar breyttu 43% mataræði. Marktækur munur var á því hversu oft fólk neytti fæðubótarefna og lækningajurta fyrir – og eftir greiningu krabbameins.

Þeir sem vilja kynna sér efnið og ritgerðina nánar er bent á að smella hér og lesa meira á Skemmunni.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.