Ljósmyndasýning til styrktar Ljósinu

Ragnar Th. Sigurðsson ljósberi býður til  ljósmyndasýningar í Gerðarsafni í Kópavogi sem hann kallar Ljósið. Allur ágóði af sölu á verkum Ragnars á sýningunni rennur til Ljóssins.

ragnar.th.jpg
                               Ragnar Th.Sigurðsson 2014

MYNDIR ÁRSINS 2014
Hin árlega ljósmyndasýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands
Ragnar Th. Sigurðsson – Ljósið

 

Árleg sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands á bestu myndum ársins 2014 verður opnuð laugardaginn 28. febrúar klukkan 15.00 í Gerðarsafni í Kópavogi.  Á sýningunni eru að þessu sinni 116 myndir sem valdar hafa verið af dómnefnd úr 905 myndum 24. blaðaljósmyndara.  Veitt verða verðlaun í níu flokkum, þ.e. fyrir Mynd ársins og fyrir bestu fréttamyndina, umhverfismyndina, portrett myndina, íþróttamyndina, daglegt líf, tímaritamynd, myndröð ársins og myndskeið ársins.

Bók með bestu blaðaljósmyndum ársins 2014 kemur út við þetta tækifæri og verður kynnt á sýningunni.  Þá opnar á neðri hæð safnsins á sama tíma sýning á myndum Ragnars Th. Sigurðssonar, sem hann nefnir Ljósið. Við sama tækifæri verða veitt blaðamannaverðlaun í þremur flokkum, þ.e. Blaðamannaverðlaun ársins, rannsóknarblaðamennska ársins og umfjöllun ársins. Dómnefnd hefur tilnefnt þrjá í hverjum flokki.

Arctic Images heldur utan um verk Ragnars Th. Sigurðssonar en allur ágóði af sölu verka Ragnars fer til styrktar Ljóssins endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra.

Gerðarsafn er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 11-17. Aðgangseyri 500 kr.

Ókeypis inn á miðvikudögum

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.