Formlegt samstarf Ljóssins, SKB og Krafts hófst miðvikudaginn 8 September.

Miðvikudaginn 8 September var skrifað undir samkomulag á milli Ljóssins endurhæfingar og stuðningsmiðstöð, Krafts stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna (SKB) um formlega samvinnu veturinn 2010-2011.
p9083034_640x480.jpg
Félögin ætla að bjóða upp á sameiginlega vetrardagskrá fyrir fólk á aldrinum 18-29 ára sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þess. Til að verkefni af þessu tagi geti orðið að veruleika þarf fjárhagslegan stuðning og verður Arion banki bakhjarl verkefnisins fyrsta misserið.
Það voru þau Tómas Hallgrímsson formaður Ljóssins, Ásta Hallgrímsdóttir formaður Krafts, Helga Þóra Eiðsdóttir frá Arion banka og Rósa Guðbjartsdóttir formaður SKB sem skrifuðu undir samninginn í höfuðstöðvum Arion banka.

Fyrsti fundur hópsins var fimmtudaginn 9. september í Ljósinu að Langholtsvegi 43. Þar var dagskrá vetrarins kynnt og hópurinn hristur saman.

Hópurinn mun hittast aðra hverja viku á fimmtudögum í vetur og gera sér dagamun. Þetta er tilvalið tækifæri til að hitta hresst og kátt fólk og eiga með því skemmtilega kvöldstund.

Rafn Haraldur Rafnsson hefur verið ráðinn umsjónarmaður hópsins. Rafn starfar á geðsviði Landspítalans við endurhæfingu og er hann íþróttafræðingur að mennt.

Fundirnir í vetur munu fara fram í húsakynnum félaganna eftir þörfum. Ljósið er til húsa að Langholtsvegi 43, SKB er til húsa að Hlíðarsmára 14 og Kraftur er til húsa í Skógarhlíð 8 í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands.

Ingólfur Þórarinsson, oftast nefndur Ingó Veðurguð, kom í heimsókn á fyrsta fundi hópsins og tók nokkur lög í lok kvölds.
Að lokinni undirskrift stilltu formenn félaganna þriggja ásamt framkvæmdastjórum þeirra, fulltrúa Arion banka og Rafni, umsjónarmanni hópsins sér upp fyrir myndatöku.

p9083047_640x480.jpg

Fimmtudaginn 23 september kl 20:00 ætla Beggi og Pacas að matreiða með ungliðunum og fara yfir borðsiði og borðskreitingar

Fundurinn verður haldinn í Skógarhlíð 8, húsi Krabbameinsfélagsins

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.